Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) telur ástæðu til að hafa áhyggjur af því að mislingar séu í sókn á Evrópusvæði stofnunarinnar. Fjöldi mislingatilfella rúmlega fertugfaldaðist 2023, að sögn WHO.
42,200 tilfelli hafa verið tilkynnt í 41 aðildarríki á Evrópusvæði WHO árið 2023 en þau voru aðeins 941 árið 2022. Fjölgunin hefur verið mest síðustu mánuði ársins og má búast við þessi þróun haldi áfram ef ekki er gripið til nauðsynlegra aðgerða.
„Bólusetning er eina vörn barna við þessum sjúkdómi, sem getur verið hættulegur,“ segir Hans Henri P. Kluge forstöðumaður Evrópuskrifstofu WHO í Kaupmannahöfn. „Það er brýnt að herða sóknina í bólusetningum til að stöðva smit og aukna útbreiðslu.“
Börn eru í mestri hættu
Mislingar eru bráðsmitandi veiru-sjúkdómur sem breiðist út í andrúmslofti. Sjúkdómurinn smitast auðveldlega þegar smitberi andar frá sér, hóstar eða hnerrar. Sjúklingar geta veikst alvarlega og jafnvel látist. Enginn er óhultur en oftast eru það börn sem veikjast. Einkennin eru hár hiti, hósti, nefrennsli og útbrot um allan líkamann.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telur að ástæða útbreiðslu mislinga nú, séu bakslag í bólusetningar. Á Evrópusvæði WHO misstu 1.8 milljónir barna af mislinga-bólusetningu á árunum 2020 til 2022.
Covid-19 heimsfaraldurinn setti sérstaklega strik í reikninginn. Sumpart má kenna skorti á bóluefni um auk þess sem bólusetningar lögðust sums staðar niður vegna lokana á COVID-tímanum. Þá má kenna falsfréttum um að bólusetningar væru áhættusamar um að bólusetningum hefur fækkað. Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa gefið út sérstaka heilbrigðis-viðvörun vegna fjölgunar mislingatilfella.
Bólusetningar bjarga mannslífum
Mislinga-bólusetningar eru öruggar og ódýrar. Talið er að bólusetningar hafi bjargað 56 milljónum mannslífa á árunum 2000 til 2021.
MMR bóluefnið gefur um 95% vörn gegn mislingum. Þátttaka á Íslandi í bólusetningu gegn mislingum hefur verið með ágætum á undanförnum árum eða tæplega 95%.
Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í bólusetningum því aðeins á þann hátt má halda þessum alvarlega smitsjúkdómi frá landinu. Börn eru bólusett 18 mánaða og 12 ára. Rétt er takmarka ferðalög með óbólusett börn til landa þar sem hætta er á smiti, segir á Heilsuveru-síðunni, þar sem finna má nánari upplýsingar með því að smella hér.
Sjá nánar hér: WHO Measles Fact Sheet