„Við þörfnumst tafarlauss vopnahlés á Gasa“

Lítil stúlka borðar brauð frá WFP þar sem hún og fjölskylda hennar hafa leitað skjóls í skóla UNRWA.
Lítil stúlka borðar brauð frá WFP þar sem hún og fjölskylda hennar hafa leitað skjóls í skóla UNRWA. Mynd: © WFP/Ali Jadallah

Gasasvæðið. Vopnahlé. Leiðtogar mannnúðarstofnana Sameinuðu þjóðanna og málsmetandi hjálparsamtaka hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem hvatt er til „tafarlauss vopnahlés af mannúðarástæðum á Gasa.“

Yfirlýsinguna undirrita meðal annars yfirmenn OCHA, samræmingarskrifstofu mannúðarmála, Flóttamannahjálparinnar (UNHCR), Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og almannasamtaka á borð við CARE International og Barnaheill.

Aðgerð á Al-Quds sjúkarhúsinu á Gasa.
Aðgerð á Al-Quds sjúkarhúsinu á Gasa. Mynd: WHO

Þar segir að 1400 manns hafi látist í hryðjuverkaárásum í Ísrael, þúsundir hafi særst og 200 séu í gíslingu, þar á meðal börn.

„Óhæfuverk“

“Hins vegar eru skelfileg dráp á enn fleiri óbreyttum borgurum á Gasasvæðinu óhæfuverk. Sama máli gegnir um að svipta 2.2 milljónir Palestínumanna mat, vatni, lyfjum, rafmagni og eldsneyti.“

Fjölskyldur sem leitað hafa skjóls í skóla UNRWA á Gasasvæðinu.
Fjölskyldur sem leitað hafa skjóls í skóla UNRWA á Gasasvæðinu. Mynd: © UNICEF/Eyad El Baba

Rúmlega 10 þúsund hafa látist á Gasa, að sögn heilbrigðisráðuneytisins undir stjórn Hamas. Á meðal látinna eru fjöldi hjálparstarfsmanna, þar á meðal 88 starfsmenn Palestínu-flóttamannahjálparinnar (UNRWA). Þetta er mesti fjöldi starfsmanna Sameinuðu þjóðanna sem látist hafa í einum átökum.

Skýrt hefur verið frá rúmlega 100 árásum á heilsugæslustöðvar á Gasa. Samtökin minna á að tugir þúsunda manna hafi verið stökkt á flótta. „Þetta er skelfilegt.“

Börn sækja vatn í  Khan Younis.
Börn sækja vatn í Khan Younis. Mynd: © UNICEF/Eyad El Baba

„Þessu verður að ljúka strax“

„Íbúarnir eru allir sem einn í herkví og sæta árásum. Þeim er meinað um aðgang að lífsnauðsynjum. Þeir sæta sprengjuárásum hvort heldur sem er á heimilum sínum, skýlum, sjúkrahúsum eða guðshúsum. Þetta er óásættanlegt.“

Hvatt er til að flutningar neyðaraðstoðar til Gasa verði leyfð.

„Við ítrekum kröfu um tafarlausa og skilyrðislausa lausn allra óbreyttra borgara sem eru í gíslingu. Við þurfum tafarlaust vopnahlé í mannúðarskyni. Þetta hefur staðið yfir í 30 daga. Það er nóg komið. Þessu verður að ljúka strax.“