Við öfundum heimsmeistarakeppnina (Eftir Kofi A. Annan)

Einhver kann að undrast að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna stingi niður penna til að skrifa um heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu. Sannleikurinn er sá að við hjá Sameinuðu þjóðunum erum græn af öfund. Heimsmeistarakeppnin er hápunktur sannarlega alþjóðlegs leiks. Knattspyrna er eini leikur sem tengir anga sína um alla jarðarkringluna: hún er leikin í hverju einasta landi af fólki af öllum kynþáttum og trúarbrögðum. Hún er eitt fárra fyrirbrigða í heiminum sem eru jafn alþjóðleg og Sameinuðu þjóðirnar. Eða jafnvel alþjóðlegra: Alþjóða knattspyrnusambandið FIFA telur 207 aðildarríki, við höfum 191.
 
En það eru enn betri ástæður fyrir öfundsýkinni.
 
Í fyrsta lagi vegna þess að í heimsmeistarakeppninni vita allir hvar þeirra lið standa og hvernig þau tryggðu sér þátttökurétt. Þeir vita hver skoraði, hvernig og á hvaða mínútu; þeir vita hverjir brenndu af fyrir opnu marki og hver bjargaði víti.  Ég vildi að það væri meira um slíka keppni í fjölskyldu þjóðanna. Að ríki kepptust um að vera sem efst á blaði í virðingu fyrir mannréttindum og reyndu að ná sem hagstæðustum úrslitum í tölum yfir barnadauða og fjölda barna í framhaldsskólum. Að ríki sýndu stolt árangur sinn frammi fyrir öllum heiminum. Ríkisstjórnir yrðu að gera þegnum sínum reikningsskil fyrir starfið sem leiddi til árangurs eða árangursleysi. 
 
Í öðru lagi finnst öllum jarðarbúum skemmtilegt að tala um heimsmeistarakeppnina.  Fara í saumana á því hvað liðið þeirra gerði rétt og hvað það hefði átt að gera öðru vísi, að ekki sé minnst á lið andstæðinganna. Fólk situr á kaffihúsum frá Buenos Aires til Beijing og skeggræðir endalaust alls kyns leikfléttur af ótrúlegri þekkingu ekki aðeins á sínu liði heldur hinum liðunum líka. Oft og tíðum tjáir fólk sitt um þetta málefni á tilfinningaþrunginn hátt og af mikilli leikni.  Þegjandalegir unglingar fá skyndilega málið og breytast í mælska, sjálfsörugga og rökfima sérfræðinga. Þess vildi ég óska að slíkar samræður væru algengari um allan heim. Að þegnarnir væru jafn gagnteknir þegar til umræðu væru staða einstakra ríkja á heimsafrekaskránni um þróun eða árangurinn í að draga úr útblæstri efna sem skaða lofthjúpinn eða að minnka HIV smit.  
 
Í þriðja lagi er heimsmeistarakeppnin atburður þar sem öll ríki hafa rétt til þátttöku á jafnréttisgrundvelli. Þau þurfa aðeins að hafa tvennt fram að færa: hæfileika og liðsheild. Ég vildi óska þess að meira væri um slíkt í heiminum, að frjáls og heiðarleg samskipti ættu sér stað án ríkisstyrkja, viðskiptahindrana og tolla. Hvert einasta ríki ætti möguleika á að sýna mátt sinn og megin á leiksviði heimsins. 
 
Í fjórða lagi er heimsmeistarakeppnin atburður sem sýnir glögglega hversu árangursríkt það er þegar einstaklingar og þjóðir sækja í smiðju annara. Sífellt fleiri landslið bjóða erlenda þjálfara velkomna til starfa sem taka með sér nýja hugsun og nýja spilamennsku. Sama gildir um leikmenn en sífellt fleiri leika fyrir lið utan heimalandanna.  Þeir færa nýju liðum sínum nýja hæfileika, læra af reynslunni og hafa enn meira fram að færa þegar þeir snúa aftur heim. Í leiðinni verða þeir hetjur í fósturlöndum sínum og opna hug og hjörtu.  Ég vildi óska þess að það væri jafn augljóst á öðrum sviðum að flutningar fólks á milli landa geta nýst öllum þremur: fólkinu sem flyst búferlum, heimalöndum þeirra og löndunum sem taka við þeim. Fólkið sem flyst byggir ekki aðeins upp betra líf fyrir sig og fjölskyldur sínar heldur eflir lika efnahagslega, félagslega og menningarlega þróun í þeim ríkjum sem það sest að í, á sama hátt og heimalöndin hagnast á nýjum hugmyndum og áunnum æfileikum fólksins þegar það snýr aftur heim. 
 
Hver einasta þjóð er stolt af því að leika í heimsmeistarakeppninni. Sérstaklega eflir þetta þjóðarstolt landa á borð við heimaland mitt Gana , sem tryggðu sér þátttökurétt í fyrsta sinn. Fyrir ríki eins og Angóla sem hafa átt við andbyr að stríða um áratugaskeið, marker þátttakan nýtt upphaf. Fyrir ríki eins og Fílabeinsströndina sem eru sundurtætt af innanlandsátökum er heimsmeistaraliðið einstakt og kröftugt tákn um einingu þjóðarinnar og innblástur endurfæðingar hennar.  
 
Og þá komum við að því sem okkur öllum hjá Sameinuðu þjóðunum þykir öfundsverðast við heimsmeistarakeppnina: í heimsmeistarakeppninni sjáum við árangur nást. Ég er ekki bara að tala um mörkin sem hvert land skorar: ég er líka að tala um að vera þar sem hluti af fjölskyldu þjóðanna og fagna þess fyrst og fremst að við erum öll hluti af mannkyninu. Ég ætla að reyna að hafa þetta í huga þegar Gana leikur við Ítalíu 12. júní í Hannover. Auðvitað get ég ekki lofað því að mér takist það.
 
 
Kofi A. Annan