Inger Andersen forstjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna segir að sú þrefalda umverfisvá sem heimurinn glími við sé enn meiri ógnun við mannkynið en COVID-19. Hins vegar geti reynslan af baráttunni við heimsfaraldurinn nýst til að takast á við loftslagsbreytingar, eyðingu náttúrunnar og mengun. Þetta kemur fram í grein Andersen sem birtist í fjölmörgum blöðum í heiminum, þar á meðal í Stundinni.
Greinin fer hér á eftir.
Við getum friðmælst við náttúruna
-eftir Inger Andersen forstjóra UNEP
Jafnvel á tímum heimsfaraldursins getur árið 2021 orðið þekkt í sögunni sem árið þegar við friðmæltumst við náttúruna og hófum að græða sár jarðarinnar.
Á sama tíma og COVID-19 hefur sett líf okkar á hvolf krefst þrálátur vandi brýnna aðgerða á heimsvísu. Þrenns konar umhverfis vá verður okkur enn sársaukafyllri en COVID-19 til langs tíma litið. Neyðarástand ríkir á plánetunni þegar saman fara loftslagsbreytingar, hrun náttúrunnar og mengun lofts, láðs og lagar.
Vísindamenn hafa árum saman lýst í smáatriðum hvernig mannkynið er að sliga jörðina og náttúruleg kerfi hennar. Margir hafa reynt að spyrna við fótum, hvort heldur sem er ríkisstjórnir, fjármálastofnanir eða einstaklingar. En aðgerðirnar hafa engan veginn dugað. Miklu meira er þörf til að vernda núverandi og komandi kynslóðir frá því að jörðin hitni svo mjög að fjöldi tegunda deyi út og loft og vatn verði eitrað.
Losun gastegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum minnnkaði vegna heimsfaraldursins. Engu að síður skýrði Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) frá því árið 2020 að jörðin myndi hlýna um 3°C á þessari öld.
90% anda að sér menguðu lofti
Fyrr í þessum mánuði staðfesti óháð bresk rannsóknarnefnd alvarlegar viðvaranir UNEP. Náttúrulegt auðmagn er heiti á þeim auðlindum og þjónustu sem mannkynið sækir til náttúrunnar. Náttúrulegt auðmagn á hvern jarðarbúa hefur minnkað um 40% á rétt rúmum tveimur árartugum. Og við vitum að 9 af hverjum 10 jarðarbúa anda að sér menguðu andrúmslofti.
Það er margslungið verkefni að leita svara við svo tröllauknum vanda. Það tekur tíma. En sérfræðingar hafa fitjað upp á lausnum. Efnahagsleg rök eru skýr. Og við höfum ferli og stofnanir til að hrinda þeim í framkvæmd. Það eru engar gildar afsakanir lengur.
Á þessu ári munu Sameinuðu þjóðirnar stefna saman ríkisstjórnum og öðrum málsaðilum til brýnna viðræðna um aðgerðir í loftslagsmálum, fjölbreytni lífríkisins og landrofi. Leiðtogafundum hefur verið frestað vegna COVID-19 og undirbúningur orðið flóknari. En samt sem áður er það ekki skálkaskjól fyrir aðgerðaleysi. Þessum leiðtogafundum ber að sýna að heiminum sé loks orðin alvara í því að ráðast til atlögu við neyðarástand plánetunnar.
Vegvísir
Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út skýrslu sem nefnist „Semjum frið við náttúruna“. Markmiðið er að vísa þeim veginn sem taka ákvarðanir. Þar eru teknar saman allar helstu sannanir um hnignun umhverfisins úr helstu vísindalegu úttektum á heimsvísu. Jafnframt eru tíunduð framúrskarandi hugmyndir um hvernig snúa megi við blaðinu. Útkoman er vegvísir um sjálfbæra framtíð sem getur tryggt velmegun mannkynsins á heilbrigðri plánetu.
Þær umhverfislegu-, félagslegu- og efnahagslegu áskoranir sem við glímum við eru innbyrðis tengdar. Eitt af Heimsmarkmiðunum um Sjálfbæra þróun er að útrýma fátækt fyrir 2030. Við getum, svo dæmi sé tekið, ekki náð þessu markmiði ef loftslagsbreytingar og hrun vistkerfa hafa grafið undan matvæla- og vatnsforða í fátækustu ríkjum heims. Okkur er nauðugur einn kostur að umbreyta efnahag okkar og samfélögum. Okkur ber að meta náttúruna að verðleikum og hafa heilbriðgi hennar að leiðarljósi í öllum ákvörðunum okkar.
Ef við gerum þetta munu bankar og fjárfestar hætta fjármögnun jarðefnaeldsneytis. Ríkisstjórnir munu flytja til fjármagn sem notað er til niðurgreiðslna og veita því til náttúruvæns landbúnaðar og hreinnar orku og vatns. Fólk hvarvetna mun forgangsraða og taka heilbrigði og vellíðan fram yfir neyslu og minnka umhverfis-fótsporið.
Hænufet duga ekki
Teikn eru á lofti um framfarir, en vandamálum fjölgar meir en lausnum. Hænufet duga ekki árið 2021 við þurfum á risastökki að halda.
126 ríki hafa heitið því að ná kolefnisjafnvægi. Hvatt er til þess að öll ríki seilist eins langt og hægt er í landsmarkmiðum sínum um loftslagsaðgerðir í aðdraganda COP26, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í nóvember á þessu ári. Umbreytingar til að greiða fyrir engri nettó losun verða að hefjast strax. Ríkisstjórnir verða að komast að samkomulagi á COP26 um alþjóðlegan kolefnismarkað. Þróuð ríki hafa lofað þróunarríkjum 100 milljörðum Bandaríkjadala árlega til að glíma við afleiðingar loftslagsbreytinga. Þessi fjárstuðningur verður að líta dagsins ljós.
Og við leitumst líka við að fá samþykkta rammaáætlun um fjölbreytni lífríkisins til að binda enda á sundrungu vistkerfa okkur. Okkur ber að brauðfæða heiminn án þess að eyðileggja náttúruna, ryðja skóga og tæma höfin.
Neyðarástand plánetunnar
Við getum skapað magnað hagkerfi með því að feta brautina í átt til hringrásar. Þannig getum við endurnýtt, dregið úr losun og kasta fyrir róða efnum og eitri sem stytta líf milljóna manna. Og ekki nóg með heldur sköpum við störf.
Allt samfélagið verður að leggjast á eitt til þess að glíma við neyðarástand plánetunnar. En ríkisstjórnir verða að taka forystuna. Byrjunin er snjöll og sjálfbær endurreisn eftir COVID-19 faraldurinn með því að fjárfesta á réttum stöðum. Skapa ber tækifæri fyrir iðnað framtíðarinnar til að leysa velmegun úr læðingi. Umskiptin verða að vera skjót og réttlát og skapa verður vinnu fyrir þá sem kunna að missa hana. Þá verður að leyfa almennum borgurum að láta rödd sína heyrast um svo dúpstæðar ákvarðanir.
Við getum þetta. Heimsfaraldurinn hefur sýnt hæfni mannkynsins við að takast á við alvarlega ógn með nýsköpun undir forystu vísindamanna. Við glímum við þrefalda umhverfisvá sem herjar á plánetuna; loftslagsbreytingar, eyðingu náttúrunnar og mengun. Þetta er enn meiri ógnun við mannkynið en COVID-19. Á þessu ári ber okkur að semja frið við náttúruna og ár hvert verðum við að tryggja að sá friður sé varanlegur.