9.desember 2016. Sameinuðu þjóðirnar hleypa af stokkunum nýrri herferð 10.desember – á Mannréttindadegi samtakanna -sem nefnist: “Rísið upp í þágu réttinda einhvers annars í dag.” (Stand up for someone’s rights today).
“Við viljum hvetja fólk, eggja það og viðurkenna framtak þeirra sem rísa upp í þágu mannréttinda hvarvetna, á vinnustaðnum, á íþróttavellinum, úti á götu, hvar sem fólk er statt í hversdagslífinu,” segir í yfirlýsingu Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.
Árslangri herferðinni sem byrjar á Mannréttindadaginn er ætlað að hvetja fólk til að taka frumkvæðið og grípa til aðgerða til varnar mannréttindum. Hugmyndir og tillögur um aðgerðir má finna á vefsíðu herferðarinnar.
“Það er kominn tími til að sérhvert okkar gangi fram fyrir skjöldu í þágu mannréttinda. Engin aðgerð er of lítil: aðgerð þín hversu lítil sem hún er og hver sem þú ert, getur skipt sköpum,” segir Zaid Ra´ad al-Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Mannréttindadagurinn er haldinn á ári hverju 10.desember. Þann dag árið 1948 samþykkti Allshjerjarþing Sameinuðu þjóðanna Mannréttindayfirlýsingu samtakanna.
Herferðin tekur sér til fyrirmyndar starf Eleanor Roosevelt, formanns nefndar sem lagði grundvöllinn að yfirlýsingunni. Hún sagði:
“Þegar öllu er á botninn hvolft hvar byrja algild mannréttindi? Á litlum stöðum, nærri heimilinu, svo litlum að þeir sjást ekki á heimskortinu.”
Þau byrja hjá hverju okkar fyrir sig. Gangið fram fyrir skjöldu og verjið réttindi flóttamanna og farandfólks, fólks með fötlun, homma,lesbía,tvíkynhneigðra og transfólks, kvenna, barna, frumbyggja, minnihlutahópa eða annara sem eiga yfir höfði sér útilokun eða sæta ofbeldi.
Um mannréttindaginn: https://youtu.be/dYleie80B3M
Nánari upplýsingar: http://www.standup4humanrights.org/
Notið lógó herferðarinnar sem finna má hér: http://www.ohchr.org/EN/NewsEvents/HRDay2016/Pages/StandUp4HumanRightsDownloads.aspx