Eþíópía. Fjöldi vannærðs fólks í hinu stríðshrjáða Tigray-héraði í norðurhluta Eþíópíu hefur aukist umtalsvert. Búast má við að ástandið versni enn.
8.8 milljónir manna þurfa á matvælaaðstoð að halda að því er fram kemur í skýrslu frá mannúðarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (OCHA). Ástandið er sérstaklega alvarlegt á þeim svæðum þar sem átök hafa geisað.
Fjöldi fólks, sem lagt hefur verið inn á sjúkrahús vegna alvarlegrar vannæringar, hefur aukist um 196% frá apríl á síðasta ári til sama mánaðar á þessu ári, segir í skýrslunni. Hins vegar bendir OCHA á að þessa aukingu kunni að mega rekja að hluta til bætts aðgangs að heilsugæslu.
Stríðshrjáð hérað
Eþíópía, næst fjölmennasta ríki Afríku, er smám saman að ná sér eftir tveggja ára átök í Tigray-héraði. Átökunum lauk með friðarsamkomulagi í nóvember 2022 á milli stjórnarinnar og uppreisnarmanna.
Á meðan á átökunum stóð skemmdust eða eyðilögðust sjúkrahús, skólar, verksmiðjur og fyrirtæki í stórskotaliðsárásum eða sættu ránum og gripdeildum. Auk átakanna urðu takmarkanir á aðgangi fyrir mannúðuaraðstoð til þess að tvær milljónir manna flúðu heimili sín, þar á meðal þúsundir til Súdan.
Matvælasendingar stöðvaðar tímabundið
Eftir lok átakanna hefur mannúðaraðstoð borist óhindrað til héraðsins, en þó eru ýmis ljón á veginum.
Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og bandaríska þróunarstofnunin USAID tilkynntu í júní að matvælaðstoð yrði stöðvuð tímabundið. Ástæðan voru umfangsmikil þjófnaður á hjálpargögnum.
„Við hugsum fyrst og fremst um þær milljónir sveltandi fólks, sem treysta á stuðning okkar. Teymi okkar vinna þrotlaust að því, ásamt samstarfsaðilum, að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið um leið og við getum tryggt að matvælin berist þeim sem þurfa mest á þeim að halda,” sagði Cindy McCain forstjóri WFP.