16.nóvember 2016. Sameinuðu þjóðirnar segja gagnkvæman skilning á milli ólíkra menningarsvæða og þjóða sjaldan hafa verið mikilvægara en nú þegar umburðarleysi og útlendingahatur færist í vöxt, til dæmis í Evrópu.
Í dag er alþjóðlegur dagur umburðarlyndis.
Nefnd á vegum Evrópuráðsins um kynþáttahatur og umburðarleyis komst að þeirri niðurstöðu í ársskýrslu sinni fyrir síðasta ár að þróunin á þessu sviði væri uggvænleg í álfunni. Sífellt meiri brögð væru að gyðingahatri, mismunun gegn svörtu fólki, Róma, þjóðernisminnihlutahópum og svokölluðu LGBTI fólki (hommar, lesbíur og fleiri). Þá hefði fjölgun flótta- og farandfólks og hryðjuverka verið vatn á myllu andúðar á Íslam í Evrópu.
Í mörgum löndum hefur flóttamannavandinn kallað fram samstöðu íbúa og margir sjálfboðaliðar hafa tekið höndum saman við yfirvöld til að bjóða nýkomið fólk velkomið. Í öðrum ríkjum hafa viðbrögðin verið af öðru tagi, og hatursáróður ásamt stífri landamæravörslu hafa ýtt undir opinskáa andúð á flótta- og farandfólki.
Fyrr á þessu ári fjallaði Zeid Ra’ad Al Hussein Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna um þetta málefni í ræðu í Haag í Hollandi. Hann varaði við því að orðræða lýðskrumara gæti leitt til óhæfuverka.
„Samfélög munu girða sig af full af ótta og og andúð með lýðskrumara og öfgamenn við stjórnvölinn,“ sagði Zeid.
Til þess að vinna umburðarlyndi framgang og eyða bábiljum um farandfólk og efla alþjóðlegar aðgerðir gegn mismunun, hafa Sameinuðu þjóðirnar hleypt af stokkunum herferð sem gengur undir nafninu Saman eða Together. Ákvörðun um herferðina var tekin á leiðtogafundi ríkja heims um málefni flótta- og farandfólks í september í New York. Aðalframkvæmdastjóri samtakanna er í forystu herferðarinnar sem verður útfærð í samvinnu við aðildarríkin, einkageirann og borgaralegt samfélag en markmiðið er að eiga samtal við samfélög sem hýsa flóttamenn og farandfólk.
Herferðinni er ætlað að efla alheimshreyfingu til að kveða niður og breyta neikvæðri afstöðu til flótta- og farandfólks
“Herferðin er andsvar við því útlendingahatri sem margir flóttamenn og farandfólk mæta og á að sýna fram á kosti margbreytileika og fólksflutninga,” segir Ban Ki-moon, í ávarpi í tilefni dagsins.