UNRWA: ríki í fjarveru Palestínuríkis

Before the 2022 war. Young Palestinian girls in Gaza, gathered in the courtyard of their school supported by UNRWA.
Áður en átökin 2022 hófust. Palestínskar stúlkar á Gasa við upphaf skólaárs. Mynd: UN Photo/Shareef Sarhan

UNRWA, Palestínu-flóttamannahjálpin nýtur sérstöðu á meðal stofnana Sameinuðu þjóðanna. Allsherjarþingið hefur falið henni að sinna almannaþjónustu, þar á meðal menntun fyrir rúmlega hálfa milljón barna, auk heilsugæslu. UNRWA gegnir því hlutverki sem allajafna hvílir á herðum ríkisvalds á hverjum stað.

Stúlka í skóla UNRWA
Stúlka í skóla UNRWA.Mynd: UN Photo/Shareef Sarhan

75 árum eftir stofnun UNRWA er tilvera stofnunarinnar í hættu í kjölfar samþykktar ísraelska þingsins sem gæti bundið enda á starf stofnunarinnar á herteknum svæðum Ísraela í Palestínu innan tæplega þriggja mánaða.

Gildi menntunar

Frumkvöðullinn Fida Abu Libfdeh hlýtur verðlaun Félags kvenna í atvinnulífinu.
Fida Abu Libdeh tekur við hvatningarverðlaunum Félags kvenna í atvinnulífinu 2021 Mynd: Silla Páls/FKA.

Menntun er Palestínumönnum sérlega þýðingarmikil og þökk sé UNRWA eru þeir á meðal best menntuðu þjóða Mið-Austurlanda.

„Ekkert er Palestínumönnum mikilvægara en menntun,“ segir Fida Abu Libdeh, orku- og umhverfisverkfræðingur og forstjóri GeoSilica. Hún var aðeins sextán ára þegar hún flutti til Íslands með móður sinni og systkinum.

„Við höfum ekki vopn og her, en við höfum menntun. Það gerir okkur kleift að vekja athygli á málstað okkar með pennann að vopni. Það hvarflar ekki að neinum Palestínumanni að stefna ekki að æðri menntun. Það er hluti af lífinu, hluti af baráttunni fyrir Palestínu. Og menntun er færanleg eign,“ segir hún í viðtali við UNRIC.

Drengur í eyðilagðri skólastofu í Nuseirat á miðju Gasasvæðinu.
Drengur í eyðilagðri skólastofu í Nuseirat á miðju Gasasvæðinu. Mynd.© 2024 UNRWA Photo

Menntun, er hins vegar, sjaldnast óumdeild. „Síðan hvenær er menntun ópólitísk?“, spyr Mið-Austurlandasérfræðingurinn Magnús Þór Bernharðsson prófessor í sögu við Williams College í Williamstown í Bandaríkjunum.

„Hlutleysiskrafan getur verið flókin því menntun er hápólitísk, enda nær hún til landsvæðis, sögu, tungumáls og þjóðfána,“ segir Magnús Þór í viðtali við UNRIC.

Drengir í fótbolta í eyðilagðri skólabyggingu í Khan Younis. Mynd:. © 2024 UNRWA Photo
Drengir í fótbolta í eyðilagðri skólabyggingu í Khan Younis.Mynd:. © 2024 UNRWA Photo

Á milli steins og sleggju, Ísrael og Hamas

 Ísraelar hafa sakað menntakerfi UNRWA um hlutleysisbrot og tengsl við Hamas. Hins vegar hefur fallið í skuggann af gagnrýni Ísraela, að Hamas hefur haft horn í síðu UNRWA, og telur stofnunina ganga erinda hernámsliðsins.

„Hamas hefur um margra ára skeið verið algjörlega andsnúið kennslu-áætlunum UNRWA, og harðlega gagnrýnt áherslur á jafnrétti kynjanna og dregið hlutleysi stofnunarinnar í efa,“ sagði Philippe Lazzarini forstjóri UNRWA á fundi fjórðu nefndar Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nýlega.

„Hamas hefur meira að segja verið andsnúið sumarbúðastarfi, þar sem stúlkur og drengir koma saman til að leggja stund á list, leiki, tónlist og íþróttir.”

Stúlka við töflu þar sem skrifað hefur verið "Við palestínsk börn þurfum á friði að halda."Tekið skóalstofu UNRWA sem breytt hefur verið í skýli fyrir flóttamenn í Khan Younis á Gasa.
Stúlka við töflu þar sem skrifað hefur verið „Við palestínsk börn þurfum á friði að halda.“ Tekið í skólastofu UNRWA sem breytt hefur verið í skýli fyrir flóttamenn í Khan Younis á Gasa. Mynd: 2024 UNRWA Photo

 „UNRWA er ríkið okkar, á meðan við höfum ekki okkar eigið og gætir hagsmuna okkar,“ segir Fida Abu Libdeh.  „Stofnunin er stór hluti af daglegu lífi okkar og sinnir mörgu af því sem við þurfum eins og menntun og heilbrigði og tryggir okkur mat þegar þörf krefur.“

Að sama skapi er tilvist UNRWA „sýnilegasti hluti palestínska flóttamannavandans,“ bendir Magnús Þór Bernharðsson á.

Börn í leikjastarfi á vegum UNRWA í rústum í Nuseirat á Gas
Börn í leikjastarfi á vegum UNRWA í rústum í Nuseirat á Gasa. Mynd. © 2024 UNRWA Photo

Israel yrði að axla ábyrgð og kostnað  

Óljóst er hvað tæki við ef UNRWA gæti ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt umboði Allsherarþings Sameinuðu þjóðanna, það er að segja að hjálpa flóttamönnum í Palestínu.

 „Það er enginn valkostur við UNRWA,” sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í yfirlýsingu 28.október þegar samþykkt Knesset, þings Ísraels lá fyrir.

Magnús Þór Bernharðsson telur ótvírætt hvar ábyrgðin liggi. „Það er enginn vafi á að Ísrael ber ábyrgð sem hernámslið.“

Stúlka málar á vegg í tómstundastarfi á vegum UNRWA.
Stúlka málar á vegg í tómstundastarfi á vegum UNRWA. Mynd: 2023 Global Appeal for UNRWA

Ekki hið einasti myndi „ábyrgðin á að sjá Palestínumönnum fyrir þjónstu hvíla á herðum Ísraels, heldur myndi kostnaðurinn falla á Ísrael, ekki Sameinuðu þjóðirnar,” segir Philippe Lazzarini.

Palestínu-flóttamannahjálpin (UNRWA) var stofnuð í kjölfar stríð Ísraela og Araba 1948-1949 í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingar Ísraels. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tók þá ákvörðun og getur því ein afturkallað hana.

„Hættan á hruni UNRWA felur í sér að lífi og framtíð einstaklinga og samfélaga er stofnað í hættu og sama gildir um stöðugleika í heimshlutanum og virkni milliríkja-kerfisins,“ segir Lazzarini. „Þetta er ögurstund UNRWA, þrjátíu og þriggja þúsund starfsmanna og milljóna palestínskra flóttamanna, sem við þjónum.“