Forstjóri Palestínuflóttamannahjálparinnar (UNRWA) gaf Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna skýrslu í gær. Hann sagði að á meðan mannúðarástandið á Gasasvæðinu versnaði kæmi Ísrael í veg fyrir að lífsnauðsynleg aðstoð frá henni komist til skila. Hann sagði þetta hluta af „lævísri herferð Ísraels“ til að flæma UNRWA frá herteknu svæðunum í Palestínu.
Ísraelski sendiherrann svaraði fullum hálsi og sakaði UNRWA um að vera „palestínsk stofnun í dulargerfi“ og krafðist þess að fjárframlögum til hennar yrði hætt.
Hryggjarstykki
UNRWA er „hryggjarstykki“ aðstoðar við tvær milljónir Gasabúa sem hrakist hafa að heiman og þjáðst í stríðinu. Átökin hafa kostað 33 þúsund lífið, aðallega konur og börn að sögn Philippe Lazzarini forstjóra UNRWA.
Að hans sögn læsir hungrið klóm sínum í íbúana á sama tíma og UNRWA er meinað um að koma nægri lífsbjargandi aðstoð til skila.
178 starfsmenn UNRWA hafa verið drepnir, 160 mannvirki eyðilögð eða skemmd og 400 Gasabúar látist í árásum á þau. Lazzarini fór fram á óháða rannsókn á árásum á mannúðarstarfsfólk í átökunum.
Hann varaði við því að niðurlagning UNRWA hefði „varanleg áhrif” og myndi leiða „örvilnun yfir heila kynslóð.”
Tími kominn til að skrúfa fyrir fé til UNRWA
Gilad Erdan sendiherra Ísraels sagði hins vegar að UNRWA væri „eitt af vopnunum” sem Allsherjarþingið hefði skapað og framlengdi einungis átökin í Mið-Austurlöndum.
„UNRWA, stofnunin sem mörg aðildarríkjanna fjármagna, er helsta hindrun Sameinuðu þjóðanna fyrir lausn deilna,” sagði hann. Hann fullyrti að stofnunin „skapaði hafsjó palestínskra flóttamanna, sem væri innrætt milljónum saman að Ísrael tilheyrði þeim.”
„Lokamarkmiðið er að þessir svokölluðu flóttamenn og ærumeiðandi réttur þeirra til að snúa aftur – réttur sem ekki er til -snýst um að flæða yfir Ísrael og eyðileggja gyðingaríkið,” sagði hann.
Erdan sendiherra sagði að jafnvel þótt „þunnt lag evrópskra starfsmanna“ ynni við að safna fé og afla stuðnings, væri „UNRWA palestínsk stofnunin sem helgaði sig að fullu upprætingu ríkis gyðinga.”
„Ísrael getur ekki og mun ekki leyfa Gasa að vinna áfram á Gasasvæðinu á sama hátt og áður. Ég ítreka að það eru valkostir við UNRWA… það er kominn tími til að skrúfa fyrir fé til UNRWA.”