Philippe Lazzarini forstjóri UNRWA segir að samþykkt ísraelska þingsins til höfuðs Palestínu-flóttamannahjálpinni sé fordæmalaus og setji hættulegt fordæmi. Hún brjóti í bága við Stofnsáttamála Sameinuðu þjóðanna og skuldbindingar Ísraelsríkis samkvæmt alþjóðalögum.
„Þetta er síðasti liður í áframhaldandi herferð til að sverta UNRWA og grafa undan lögmæti hennar í að koma aðstoð og þjónustu til palestínskra flóttamanna,“ sagði Lazzarini í yfirlýsingu.
„Þessi lagafrumvörp munun einungis auka á þjáningar Palestínumanna, sérstaklega á Gasasvæðinu, þar sem íbúarnir hafa þurft að búa við hreint helvítí í meir en ár.“
Lazzarini benti á að ákvörðunin svipti 650 þúsund stúlkur og drengi skólagöngu, og setti heila kynslóð barna í hættu.
„Þessi lagafrumvörp auka þjáningar Palestínumanna og í þeim felst sameiginleg refsing.“
Bréf til Allsherjarþingsins
Í bréfi til Philémon Yang forseta Allsherjarþingsins varaði Lazzarini við því að UNRWA kunni nú að vera gert ómögulegt að rækja það starf sem Allsherjarþingið hefði falið stofnuninni.
„Ég verð að tilkynna yður að stofnunin sætir árásum, sem engin dæmi eru um í sögu Sameinuðu þjóðanna. Af þeim sökum kann henni að vera ómögulegt að uppfylla það umboð sem Allsherjarþingið hefur samþykkt ef þingið grípur ekki til aðgerða,” skrifaði Lazzarini.
„Lagasetningin kemur eftir að lífi starfsmanna UNRWA hefur verið stefnt í voða í heilt ár, sem og starfsvettvangi og mannúðarstarfi þess á Gasasvæðinu. Þá hefur ríkisstjórn Ísraels beitt rangfærslum og upplýsingaóreiðu til að grafa undan fjárveitingum til UNRWA.“