Guterres gagnrýnir árásir á friðargæsluliða í Líbanon

Ítalskur friðargæsluliði í UNIFIL við eftirlit í suðurhluta Líbanon.
Ítalskur friðargæsluliði í UNIFIL við eftirlit í suðurhluta Líbanon. Mynd: UN Photo/Pasqual Gorriz

 Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað að liðsmenn Sameinuðu þjóðanna þurfi að vera öryggir og óhultir eftir að ísraelsk ökutæki brutust inn á svæði UNIFIL, friðargæslusveitar Sameinuðu þjóðanna í Suður-Líbanon.

Atvikið átti sér stað á sunnudagsmorgun. Þá eyðilögðu tveir ísraelskir skriðdrekar inngang að stöð friðargæsluliða og ruddust inn á svæði þeirra. Um tveimur klukkustundum síðar, eftir að skriðdrekarnir höfðu yfirgefið svæðið, var fjölmörgum skotum skotið og reyk lagði inn í stöð friðargæsluliða.

Þetta er eitt fjölmargra atvika þar sem Ísraelsher beinir spjótum að friðargæsluliðum á undanförnum dögum. Að sögn UNIFIL, friðargæslusveitarinnar, hafa fimm friðargæsluliðar verið særðir og stöðvar og mannvirki UNIFIL verið skemmd. Þá hafa ferðir friðargæsluliða verið stöðvaðar.

Aroldo Lázaro yfirmaður UNIFIL heimsækir friðargæsluliða frá Nepal.
Aroldo Lázaro yfirmaður UNIFIL heimsækir friðargæsluliða frá Nepal. Mynd: UN Photo/Pasqual Gorriz

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt til þess að friðargæsluliðar séu öruggir og óhultir og friðhelgi stöðva þeirra virt.

Í umboði Öryggisráðsins

Í yfirlýsingu hans segir að UNIFIL muni halda áfram að leggja mat á aðstæður og allt verði gert til að tryggja öryggi friðargæsluliða.

„Hlutverk UNIFIL og vera friðargæsluliðsins í Suður-Líbanon er samkvæmt ákvörðun og umboði Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna,” bendir Guterres á í yfirlýsingu sinni. „Í þessu samhengi er UNIFIL-sveitin staðráðin í að tryggja að hún sé í stakk búin að styðja diplómatíska lausn byggða á álykun 1701, sem er eina leiðin fram á við.”

 UNIFIL var stofnuð af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna með það að markmiði að fylgjast með vopnahléi eftir innrás Ísraels í Líbanon 1978. UNIFIL ber að aðstoða ríkisstjórn Líbanons við að endurreisa vald hennar á þessu svæði.

Friðargæsluliðar í UNIFIL nærri Tyrus í Líbanon.
Friðargæsluliðar í UNIFIL nærri Tyrus í Líbanon. Mynd:  UN Photo/Pasqual Gorriz

 Brot á alþjóðalögum

Aðalframkvæmdastjórinn lagði áherslu á að aldrei beri að gera starfsmenn og mannvirki UNIFIL að skotmarki.

„Árásir á friðargæsluliða eru brot á alþjóðalögum, þar á meðal alþjóðlegum mannúðarlögum. Slíkt getur falið í sér stríðsglæpi,“ sagði í yfirlýsingunni.

Aðalframkvæmdastjórinn hvattti alla deilendur, þar á meðal Ísraelsher að „forðast hvers kyns aðgerðir“ sem stofni friðargæsluliðum í hættu.  Hann hvatti einnig til að átökum skyldi hætt og að álykun Öryggisráðsins númer 1701 skyldi framfylgt fyllilega.

Sjá nánar um UNIFIL hér.