UNICEF óskar eftir milljarði dala handa konum og börnum

 Barnahjálp (UNICEF) fór í gær fram á eins milljarðs dollara framlag í neyðarsjóð sinn til að sinna þúsundum kvenna og barna sem eiga um sárt að binda af völdum hungurs, sjúkdóma, ofbeldis og fátæktar á erfiðleikasvæðum sem oft heyrist lítið um í fréttum.  

“Vannæring á stóran þátt í dauða þriðjungs þeirra níu milljóna barna sem látast undir fimm ára aldri á hverju ári, ” sagði Ann M. Veneman, forstjóri UNICEF. 

“Því miður taka fáir eftir dauða þessara barna,” bætti Veneman við á blaðamannafundi í Genf þar sem hún fylgdi úr hlaði nýrri skýrslu UNICEF um aðgerðir í mannúðarmálum. Þar er tíundaður vandi kvenna og barna víða um heim en skýrslan er jafnframt eitt helsta fjáröflunartæki stofnunarinnar.  

 “UNICEF fer fram á rétt rúman einn milljarð dollara til að bjarga lífi barna og kvenna í 36 löndum og standa straum af kostnaði við lyf, hreint vatn, hreinlæti, næringu, bráðabirgðaskýli og aðstöðu til náms,” sagði Veneman. 

Fjárbeiðnin í ár er 17% hærri en 2008 að miklu leyti vegna aukinna þarfa í austur- og suðurhluta Afríku. Meir en helmingur fjárins rennur til áframhaldandi starfsemi UNICEF í Lýðveldinu Kongó, Sómalíu, Súdan, Úganda og Simbabwe.