Verulegur skortur er á góðri dagvistun barna á viðráðanlegu verði í mörgum af ríkustu löndum heims. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Ísland, Noregur og Svíþjóð eru á meðal þeirra ríkja þar sem best er að málum staðið hvað þetta varðar að mati UNICEF. Bandaríkin, Ástralía, Sviss, Kýpur og Slóvakía eru hins vegar neðst á blaði.
Framboð á gæða barnagæslu á viðráðanlegu verði er efni skýrslu UNICEF sem kom út í dag, 18.júní. Í skýrslunni eru 41 ríki innan OECD og Evrópusambandsins raðað á lista eftir því hvernig þau standa sig í framboði á vistun barna.
Þeir þættir sem kannaðir voru, voru meðal annars stefnumörkun í hverju ríki, foreldraorlof og góð vistun barna frá fæðingu til skólaaldurs.
Fjölskylduvænar fjárfestingar
„Til þess að tryggja börnum góða byrjun í lífinu, þarf að styðja við bakið á foreldrum til þess að skapa uppeldisvænt og ástríkt umhverfi sem er forsenda þess að börn læri, líði vel og þroskist félagslega,“ segir Henrietta Fore forstjóri UNICE. „Fjárfestingar ríkisins í fjðlskylduvænum stefnumiðum, þar á meðal barnagæslu, tryggir að foreldrar hafi nægan tíma, úrræði og þjónustu sem til þarf svo að þau geti stutt börn sín á hverju þorskastigi .“
Í þeim löndum sem eru efst á listanum fer saman að boðið sé upp á barnagæslu og að hún sé í háum gæðaflokki. Jafnframt standa jafnt mæðrum sem feðrum til boða vellaunuðu foreldraorlof þannig að þau hafi val í því hvernig þau sinna börnum sínum.
Í skýrslunni er bent á að minna en helmingur þessarar ríkustu landa heims bjóða mæðrum að minnsta kosti 32 vikna fæðingarorlof á fullum launum. Feðraorlof er jafnan mun styttra og stendur ekki alls staðar til boða. Fáir feður nýta sér fríið vegna hindrana í atvinnulífinu og menningu hvers ríkis, þótt þetta sé vissulega að breytast.
Alvarleg hindrun
Skortur á dagvistun barna á viðráðanlegu verði er þrándur í götu foreldra, og eykur á félagslegan og efnahagslegan ójöfnuð innan ríkja. Á Nýja Sjálandi, Írlandi og Sviss þurfa pör með meðaltekjur að verja á milli þriðjung og helmings launa til að borga fyrir vistun tveggja barna. Í Bandaríkjunum, Kýpur og Slóvakíu fer allt að helmingur launa einstæðra foreldra í að greiða fyrir barnagæslu.
UNICEF hvetur til að minnsta kosti sex mánaða greidds fæðingarorlofs og almenns aðgangs að góðri dagvistun fyrir börn á viðráðanlegu verði frá fæðingu og fram að skólaaldri.