COP27.Loftslagsbreytingar. Eftir því sem meira tjón verður af völdum loftslagsbreytingar, verða ríki heims að auka umtalsvert fjárveitingar og aðgerðir til að hjálpa berskjölduðum þjóðum og samfélögum við að glíma við loftslagsbreytingar. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu UNEP, Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP’s Adaptation Gap Report 2022: Too Little, Too Slow – Climate adaptation failure puts world at risk).
Skýrslan kemur út í aðdraganda COP27, síðustu hrinu loftslagsviðræðna, sem hefjast 6.nóvember í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi. Þar kemur fram að á heimsvísu hafa skipulagning, fjárveitingar og framkvæmdir ekki aukist í takt við aukna hættu.
„Kostnaður við aðlögun í þróunarríkjunum gæti hækkað í allt að 340 milljarða Bandaríkjadala 2030. Samt er stuðningur okkar við aðlögun í dag minna en tíundi hluti þessarar upphæðar. Berskjaldað fólk í heiminum og samfélög líða fyrir þetta. Það er óásættanlegt,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri í tilefni af útgáfu skýrslunnar.
Loftslagshætta vex
Þurrkar ár eftir ár á Horni Afríku, fordæmalaus flóð í Suður Asíu og skæðir sumarhitar á norðurhveli jarðar eru til marks um aukna hættu af völdum loftslagsins. Þessir atburðir verða nú þegar hækkkun hitastigs nemur aðeins 1.1°C miðað við fyrir iðnbyltingu.
Í annari nýlegri skýrslu UNEP kom fram að miðað við landsmarkmið í tengslum við Parísarsamkomulagið um loftslagsaðgerðir mun hitinn hækka um 2.4-2.6° fyrir loka aldarinnar. Rannsókn Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) hefur leitt í ljós að loftslagshætta eykst verulega með hækkun hitastigs um tíunda hluta Celsius-gráðu.
„Loftslagsbreytingar eru að greiða mannkyninu þung högg eins og við höfum séð á þessu ári, 2022: og nægir að nefna flóðin í Pakistan,“ segir Inger Andersen forstjóri UNEP. „Veröldinni ber að draga hið bráðasta úr losun gróðurhúsalofttegunda til að takmarka áhrif loftslagsbreytinga. En okkur ber einnig að auka viðleitni til að aðlagast áhrifum sem nú þegar eru komin fram og jafnramt þeim sem einnig eiga eftir að koma í ljós.“
Hægar framfarir
Í skýrslunni kemur fram að fleiri en átta af tíu ríkjum hafa hið minnsta eitt aðlögunar-úrræði á landsvísu. Þau eru í framþróun og ná til sífellt fleiri.
Þriðjungur þeirra 197 ríkja sem eiga aðild að Loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna komið sér upp mælanlegum og tímabundnum áætlunum um aðlögun.
Hins vegar, hefur fjármagn ekki verið tryggt til að hrinda þessum áætlunum í framkvæmd.Talið er að alþjóðleg fjármögnun þuyrfti að vera fimm til tíu sinnum meiri til að brúa bilið á mill þarfa og fjármögnunar og þetta bil fer vaxandi.