Úkraína. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær ályktun þar sem hvatt er til að endi verði bundinn á stríðið í Úkraínu. Þess var krafist að herlið Rússa yrði kvatt heim í samræmi við stofnskrá samtakanna.
Á ellefta neyðarfundi þingsins um málið, var samþykkt ályktun örfáum klukkustundum fyrir ársafmæli innrásar Rússa.
141 aðildarríki greiddi atkvæði með ályktuninni. Þrjátíu og tvö ríki, þar á meðal Kína, Indland og Pakistan sátu hjá en sjö voru á móti. Auk Rússlands, greiddu Erítrea, Hvíta-Rússland, Malí, Nikaragúa, Norður-Kórea og Sýrland atkvæði gegn henni.
Í ályktuninni ítrekar Allsherjarþingið að Rússlandi beri að „kalla heim þegar í stað og skilyrðislaust allar hersveitir frá yfirráðasvæði Úkraínu og leggja niður vopn.”
Réttlæti fyrir fórnarlömb
Í ályktuninnni er staðfestur stuðningur Allsherjarþingsins við fullveldi, sjálfstæði og einingu Úkraínu innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra, auk lögsögu á hafi.
Allsherjarþingið leggur einni áherslu á nauðsyn þess að tryggja að þeir sem eiga sök á alvarlegustu glæpum samkvæmt alþjóðalögum verði dregnir til ábyrgðar. Fara beri fram innlendar og alþjóðlegar rannsóknir. Sótt verði til saka til að tryggja réttlæti til handa öllum fórnarlömbum og til að hindra að slíkir glæpir verði framdir í framtíðinni.
Sjá einnig hér um mannúðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna í Úkraínu.