Talið er að eitt af sjö þúsund tungumálum veraldar hverfi á tveggja vikna fresti. Það þýðir að tungumálum heimsins fækki um helming fyrir næstu aldamót. Til að sporna meðal annars við þessari þróun hefur Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lýst yfir að 2022-2032 verði áratugur frumbyggjamála.
Það er svo sannarlega ekki tilviljun að tungumál frumbyggja eigi sérstaklega undir högg að sækja.
Málefni frumbyggja í Norður-Ameríku voru töluvert í sviðsljósi á síðasta ári þegar ómerktar grafi barna í heimavistarskólum í Kanada fundust. Málið varð til þess að rifjað var upp hvernig börn voru tekin frá foreldrum sínum og töpuðu meðal annars menningararfleifð sinni og móðurmáli. Þeim var kennd enska, kristni og verkleg störf.
Prjón stungið í gegnum tungu
Dæmi voru um í Bandaríkjunum að stungið væri prjón í gegnum tungu frumbyggjabarna ef þau töluðu móðurmál sitt í skólanum. Ekki má gleyma því að sömu sögu var að segja af mörgum Evrópuríkjum. Þannig var til dæmis lengi slegið á hendur bretónskra barna í frönskum skólum ef þau töluðu sín á milli á bretónsku.
Alþjóðlegt ár frumbyggjamála heimsins hófst 1.janúar 2022. UNESO, Mennta-, menningar og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur veg og vanda af skipulagningunni. Það byggir á starfi ársins 2019 sem var Alþjóðlegt ár frumbyggjamála.
Mörg ríki sem eiga í hlut hafa tekið saman landsáætlanir til að bæta stöðu frumbyggjamála.