Tóbaksneysla. Fjöldi tóbaksneytenda minnkar þrátt fyrir tilraunir tóbaksiðnaðarins til að leggja stein í götu baráttunnar gegn sígarettureykingum og öðrum tóbaksvarningi. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), sem kom út í dag.
Árið 2022 notaði um það bil fimmti hver fullorðinn tóbak, en hlutfallið var þriðji hver árið 2000.
Sígarettureykingar eru enn algengasta tegund tóbaksneyslu, en einnig má nefna vindla, vatnspípur (hookah) og reyklausar tóbaksneysluaðferðir. Allar þessar neysluaðferðir eru skaðlegar að mati stofnunarinnar.
„Ég er furðu lostinn yfir því hversu langt tóbaksiðnaðurinn gengur í að raka saman gróða á kostnað fjölda mannslífa,” segir dr Rüdiger Krech hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. „Um leið og ríkisstjórnir halda að björninn sé unninn í baráttunni gegn tóbaki grípur tóbaksiðnaðurinn tækifærið og reynir að hafa áhrif á stefnumótun í heilbrigðismálum og selja sína banvænu vöru.”
„Tóbaksfaraldurinn“ er ein mest lýðheilsuvá veraldar og grandar rúmlega 8 milljónum manna á árið að sögn Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Rúmlega sjö milljónir þessara dauðsfalla má rekja til beinnar tóbaksneyslu, en 1.3 milljónir manna, sem ekki reykja, deyja vegna óbeinna reykinga.
Aðgerðir virka
1.25 milljarður manna neytir tóbaks. Tekist hefur að minnka fjölda neytenda í 150 ríkjum. Nefna má sem dæmi Brasilíu og Holland, þar sem beitt hefur verið aðferðafræði, sem nefnist MPOWER. Þar er sjónum beint að vernd, að bann við auglýsingum og styrktaraðilum sé virt, gjöld á tóbaksvörur hækkuð og fólk sem vill hætta aðstoðað.
Brasilíu hefur tekist að minnka hlutfall neytenda um 35% frá 2010 og Holland nærri 30%.