Til stuðnings fórnarlömbum pyntinga, 26. júní 2006

Alþjóðlegur dagur til stuðnings fórnarlömbum pyntinga er ætlað að vekja athygli á þjáningum fórnarlamba pyntinga, fjölskyldna þeirra og samfélaga og er gott tækifæri fyrir okkur til að ítreka sameiginlega fordæmingu okkar á pyntingum og hvers kyns grimmilegri, ómannúðlegri og niðurlægjandi refsingum.  
 
Bann við pyntingum hvílir á traustum grunni. Það er algjört og ótvírætt. Það á við hvers kyns kringumstæður, bæði á stríðstímum og friðar. Pyntingar eru heldur ekki leyfðar undir öðru nafni: grimmilegar og óvenjulegar refsingar eru óásættanlegar og ólöglegar hvað sem þær eru kallaðar.  
 
Samt sem áður viðgengst þessi illska í mörgum samfélögum okkar og er látin viðgangast af ríkisstjórnum og fulltrúum þeirra. 
 
Við verðum öll að leggjast á eitt að hreinsa þennan ljóta blett af samvisku heimsins. Við þurfum að mótmæla slíku atferli og tvíefla baráttu okkar við að uppræta pyntingar í hvaða formi sem er. 
 
Ég fagna innilega gildistöku Valkvæða viðaukans við sáttmálann gegn pyntingum og annari grimmilegri ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð og refsingum.  Með því að koma á fót heimsóknakerfi til fangelsa getur sáttmálainn hindrað slæma meðferð fanga. Ákvæði hans geta einnig auðveldað starf sérstakra erindreka í pyntingum. Ég hvet þau ríki sem enn hafa ekki staðfst sáttmálann og valkvæða viðaukann að gera slíkt og heimila fórnarlömbum að nýta sér ákvæði hans til þess að koma kvörtunum á framfæri. 
 
Í ár eru tuttugu og fimm ár liðin frá stofnun sjóðs Sameinuðu þjóðanna til stuðnings fórnarlömbum pyntinga. Sjóðurinn er einn stærsti mannúðasjóður Sameinuðu þjóðanna og veitir samtökum sem hjálpa fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra mikilvægan stuðning.  Ég vil þakka þeim sem hafa látið fé af hendi rakna til sjóðsins og hvet alþjóða samfélagið til að halda áfram að styrkja sjóðinn rausnarlega. Ég þakka einnig frjálsum félagasamtökum um allan heim fyrir stuðning við fórnarlömb pyntinga og fjölskyldur þeirra.  
 
            Á þessum alþjóðlega degi til stuðnings fórnarlömbum pyntinga skulum við ítreka óafsalanleg réttindi og reisn allra karla og kvenna og heitum því að berjast gegn grimmilegri, niðurlægjandi og ómannúðlegri meðferð hvar sem er í heiminum.