Tíðahvörf snúast um meira en að stinga höfðinu inn í ísskáp

Alþjóðlegur dagur tíðahvarfa er 18.október.
Alþjóðlegur dagur tíðahvarfa er 18.október.

Bandaríska forsetafrúin Claire Underwood hefur stungið höfðinu inn í ísskáp til að draga úr hitakófinu. Þetta atriði úr hinum vinsælu „House of Cards” þáttum er dæmigert fyrir þá klisju að tíðahvörf snúist aðeins um eitt: hitakóf.  18.október er Alþjóðlegur dagur tíðahvarfa.

Þetta er það eina sem margar konur fá að heyra um tíðahvörf. Að um fimmtugsaldurinn finni konur fyrir heldur óþægilegum hita en innan nokkurra mánaða hætti blæðingar og auðvitað komi ekki fleiri börn.

Tíðahvörf er náttúrulegt fyrirbæri sem allar konur upplifa að meðaltali á aldrinum 45 til 55 ára. Eggjastokkarnir, sem hafa um skeið framleitt sífellt færri egg, hætta því nú alveg. Styrkur estrógen hormónsins minnkar og blæðingar hætta.

En þetta er ekki svona einfalt.

Frá norrænum fundi um jafnréttismál
Frá norrænum fundi um jafnréttismál. Mynd: Andreas Omvik/norden.org

Breytingaskeiðið 

Áður en hingað er komið upplifa konur breytingaskeiðið. „Það getur varað í mörg ár og snert líkamlega, tilfinningalega, geðræna og félagslega vellíðan,” að sögn Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Á þessu æfiskeiði eru blæðingar óreglulegar, stundum tvisvar í mánuði, stundum á tveggja mánaða fresti, stundum örfáir dropar en á öðrum stundum hreinasta blóðbað.

Hitakófið er sjaldnast jafn áferðarfallegt og í sjónvarpsþáttunum. Að sögn WHO „felur það í sér að hitna skyndilega í andliti, hnakka og brjósti, með svitakófi og hjartsláttarónotum. Oft roðnar hörundið og konan finnur fyrir áköfum líkamlegum óþægindum, sem vara í nokkrar mínútur.“

Druslugangan í Reykjavík.
Druslugangan í Reykjavík. Mynd: Iris Dager / norden.org

50 þúsund íslenskar konur

Oft og tíðum vakna konur um miðjar nætur í svitabaði og halda til vinnu örþreyttar að morgni. Við listann má bæta verkjum í liðamótum, þyngdaraukningu og getið þið hvað?….pirringi. Það er ekki heyglum hent að halda stillingu sinni þegar blæðingar eru duttlungafullar, kona svitnar óstjórnlega, næturnar eru svefnlausar og verkir eru um allan líkama

Að ekki sé minnst á verk í brjóstum og þurr leggöng sem gera samfarir sársaukafullar. Hárið sem lét sér nægja að vaxa í handarkrika, skýtur allt í einu upp kollinum á hökunni.

Haft er fyrir satt að 26% kvenna í heiminum hverjum sinni séu 50 ár og eldri, það er að segja á þeim aldri að glíma við eða hafa glímt við tíðahvörf. Ef sú tala er heimfærð upp á Ísland má gera ráð fyrir að sá hópur telji 50 þúsund konur  Og sumar þeirra munu aldrei heyra minnst á þau.

Myndræn framsetning á tíðahvörfum.
Myndræn framsetning á tíðahvörfum. Mynd: Adam Harangozó
Creative Commons Zero, Public Domain Dedication

Að leysa orðið úr læðingi

Ef ekki ríkti slík bannhelgi á tíðahvörfum er líklegt að meiri upplýsingar væru fyrirliggjandi og konur skildu ástand sitt betur og nytu meiri stuðnings á þessu æviskeiði. Og kannski væru þær síður „pirraðar”!

Og ástæðulaust er að gleyma að konur, stundum mjög ungar,  upplifa  snemmbær tíðahvörf vegna veikinda eða krabbameinsmeðferðar.

Hve margar þeirra ræða málið við makann, vini eða lækni? Eða vinnuveitandann þegar einkennin verða þeim um megn?

Hvers vegna njóta aðeins 6% kvenna hormónauppbótarmeðferð? Vissulega er ekki mælt með slíku við ákveðnar aðstæður, svo sem þegar brjóstakrabbamein-saga er hjá konum, þá er sjaldnast boðið upp á slíkt. Svo er til meðferð sem ekki krefst hormónameðferðar.

Alþjóðlegur dagur tíðahvarfa er haldinn 18.október. Efnt er til dagsins til að svipta bannhelgi af tíðahvörfum og hvetja til þess að ræða megi málið kinnroðalaust.