Gasasvæðið. Bólusetningar. Lömunarveiki.
Bólusetningarherferð Sameinuðu þjóðanna á Gasasvæðinu hefur gengið vonum framar. Mannúðarstarfsmenn Sameinuðu þjóðanna, sem hafa náð til hátt í 200 þúsund barna, segja að sjúkdómar – andlegir sem líkamlegir – hrjái flest þeirra.
Á þeim 11 mánuðum sem liðnir eru frá því átökin blossuðu upp, hafa níu af hverjum tíu íbúum flosnað upp frá heimilum sínum. Við þær aðstæður er fólkið sérstaklega berskjaldað fyrir hungri, vannæringu og sjúkdómum.
„Við höfum náð að bólusetja 187 þúsund börn með því að heimsækja hvert einasta tjald og skýli,“ segir Louise Wateridge hjá UNRWA, Palestínuflóttamannahjálpinni.
„Þessar bólusetningar fara fram á átakasvæði, þar sem margir sjúkdómar á borð við lifrarbólgu A breiðast nú út.“
![Bólusetningarherferðin hefur staðið yfir í fjóra daga. Mynd: UNRWA](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2024/09/image1170x530cropped-3-392x178.jpg)
Húð barna þakin útbrotum
„Flest barnanna sem ég hef séð þjást af húðsjúkdómum og eru þakin útbrotum. Við gerum okkar besta í að bólusetja börnin en á sama tíma þrífast aðrir sjúkdómar á ómanneskjulegum aðstæðunum.“
Wateridge segir að börn hafi þurft að vaða heilsuspillandi skólp við eina heilsugæslustöðina til að fá lömunarveiki-sprautuna.
„Fólkið vantar allt – ekki bara lömunarveiki-sprautuna. Það vantar hvers kyns hjúkrunargögn, hreinlætisvörur og hreint vatn er algjör forsenda þess að stöðva útbreiðslu sjúkdóma,” sagði Wateridge.
![Um 187 þúsund börn voru bólusett á fjórum dögum.](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2024/09/image1170x530cropped-392x178.jpg)
Mest þörf á vopnahléi
„Það sem vantar þó mest er að koma á vopnahléi – tafarlaust.“
Auk UNRWA hafa Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO), Barnahjálpin (UNICEF), hjálparsamtök og sjálfboðaliðar tekið þátt í bólusetningunum.
„Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að sjá börnin koma út úr sjúkraskýlunum og lifta litla fingri, sem litaður hefur verið bleikur til marks um að bólusetningu sé lokið,“ sagði Wateridge.
Bólusetningum á miðhluta Gasa lauk í gær, miðvikudag. Tvö þúsund og tvö hundruð starfsmenn taka næst til hendinni í suðurhluta Gasa og síðan liggur leiðin norður. Endurtaka þarf síðan bólusetningar að fjórum vikum liðnum.
![Sjúklingar á Al Shifa sjúkrahúsinu í Gasaborg bíða aðhlynningar eftir loftárás. Mynd: © WHO](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2024/09/image1170x530cropped-1-3-392x177.jpg)
Gasa: versti staðurinn fyrir börn
UNICEF telur að Gasa sé „versti og hættulegasti staður heims fyrir börn.“ Matur er af skornum skammti; sjúkrahús tæpast starfhæf og skólar hafa oft og tíðum verið jafnaðir við jörðu. Meir en fimmtíu þúsund börn glíma við brýna vannæringu og eru dauðvona ef þau fá ekki meðferð að mati UNICEF.
Á sama tíma fordæmdi sendiherra Ísraels í Genf Hamas fyrir það sorglega gjald sem börn hafa greitt fyrir stríðið. Sendiherrann, Daniel Meron, sagði á fundi Nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, að Hamas væri í felum innanum óbreytta borgara. Op neðanjarðarganga væru stundum í barnaherbergjum á Gasa og undir skólum. Þar væru geymd vopn og þau þjónuðu sem skotpallar fyrir eldflaugar.
„Við höfum fundið vopn undir vöggum. Það hafa verið vopn innan í leikfangaböngsum, á fæðingardeildum og sjúkrahúsum,” sagði sendiherrann á fundi nefndarinnar.