Mannréttindasérfræðingur Sameinuðu þjóðanna segir að ekki sé líðandi að Róma-fólk um allan heim sé gert að blórabögglum stjórnmálamanna. Árásir á samfélagsmiðlum séu með öllu óþolandi. 8.apríl er Alþjóðlegur dagur Róma-fólks.
Fernand de Varennes, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um málefni minihlutahópa segir að ríkjum beri að grípa til forvirkra aðgerða. Berjast beri gegn umburðarleysi og árásum á Róma-fólk og aðra minnihlutahópa.

„Nú eru nærri 80 árum frá þjóðarmorði Róma-fólks í síðari heimsstyröldinni. Það er sorglegt að minnihlutahópar, sérstaklega Róma-fólk í Evrópu og víðar, skuli verða í sívaxandi mæli fyrir barðinu á hatursfullri orðræðu. Enn má þessi hópar þola að vera skotmark stjórnmálamanna og annara,“ segir de Varennes.
Sambærilegt við árásir á gyðinga
„Við vitum af reynslunni hvað gerðist í síðari heimsstyrjöldinni. Þá voru gyðingar í Þýskalandi nasismans voru útmálaðir sem framandi og fjandsamlegir þýskum gildum og menningu,“ segir de Varennes. „Nú beinist sams konar málflutningur að Róma-fólki.“
Þess er minnst 2.ágúst að þann dag árið 1944 voru þrjú þúsund börn, konur og karlar í svokölluðum „Sígauna-búðum í Auschwitz-Birkenau myrt í gasklefum. Ekki liggja fyrir áreiðanlegar tölur en talið er að á bilinu fjórðungur til helmingur einnar til einnar hálfrar milljónar Róma-fólks í Evrópu hafi látist í þjóðarmorðinu á dögum Síðari heimsstyrjaldarinnar.
Róma- fólk eða Romani er fólk af indó-arískum uppruna sem hefur um árhundruð búið í Evrópu, oftar en ekki án fastrar búsetu. Þeir gengu löngum undir nafninu „sígaunar“ sem þeir telja neikvætt og kjósa fremur Róma eða Romani.