Áfengi. Krabbamein. Brjóstakrabbamein.
Áfengisneysla tengist rúmlega tvö hundruð sjúkdómum, þar á meðal brjósta- og ristilkrabbameini og fimm öðrum krabbameinstegundum. 8.8% dauðsfalla á Evrópusvæði Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) má rekja beint til áfengisneyslu. Evrópuskrifstofa stofnunarinnar hefur hleypt af stokkunum nýrri vitundarvakningu um áfengi.
Þrátt yfir þessa alvarlegu ógn við heilsuna, og skaðlegar afleiðingar, er minna en helmingi Evrópubúa kunnugt um tengslin á milli áfengis og krabbameins.
Þá er það umhugsunarefni nú í Alþjóðlegri vitundarviku um brjóstakrabbamein að aðeins 21% kvenna í fjórtan Evrópuríkjum, sem nýleg könnun náði til, vita af tengslum áfengisneyslu og hættunnar af því að fá krabbamein í brjóst. Hættan eykst með jafnvel tiltölulega lítilli neyslu.
Að mati Alþjóðlegu krabbameinsrannsóknastofnunarinnar (CIRC) mátti rekja 40 brjóstakrabbameinstilfelli á Evrópusvæði WHO til áfengisneyslu árið 2020.
Vitundarvakning
„Herferðin Endurskilgreinum áfengi hefur að markmiði að koma á framfæri upplýsingum sem byggja á staðreyndum og hvetja einstaklinga til að hugsa upp á nýtt venjur sínar og áfengisnotkun,“ segir Dr Gauden Galea ráðgjafi hjá WHO.
Í herferðinni eru Evrópubúar hvattir til að vega og meta hvaða sess áfengi hefur í lífi þeirra og samfélagsins alls, mannamótum og hefðum.
„Fyrir utan líkamlegaáhrif neyslu, veldur áfengi víðtækum samfélagsvandamálum,” segir Galea. „Áfengisneysla skiptir miklu máli þegar ofbeldisverk eru annars vegar, þar á meðal kynferðis- og kynbundið ofbeldi. Áfengi kemur við sögu í umferðarslysum og ýmsu tjóni, sem snerta ekki aðeins þá sem drekka heldur fjölskyldur þeirra og samfélagið sjálft.”
„Við hvetjum þá sem móta stefnu og heilbrigðisyfirvöld til að stuðla að breyttri menningu hvað varðar afstöðu til áfengis og reglna samfélagsins.”