Jafnrétti kynjanna. Talið er að tvö hundruð milljónir kvenna og stúlkna hafi sætt misþyrmingum á kynfærum. 6.februar er Alþjóðlegur dagur algjörs umburðarleysis gagnvart kynfæra-umskurði kvenna (FGM).
Tilgangur dagsins er að fylkja liði um útrýmingu slíks verknaðar. Almennt er kynfæraskurður talinn brot á mannréttindum og aðför að heilbrigði kvenna.
Verknaðurinn á sér sömu rætur og ójafnrétti kynjannaog þau flóknu félagslegu viðmið, sem takmarka þátttöku kvenna í samfélaginu og menntun. Eitt af Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun felur í sér að uppræta kynfæraskurð fyrir 2030. Þetta er talið mikilvægur liður í að koma á jafnrétti kynjanna og bæta heilsu og velferð, tryggja öryggi mæðra, bæta menntun og stuðla að því að samfélög þjóni öllum.
30 ríki
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreinir kynfæra-umskurð kvenna á þann hátt að ytri hluta kynfæra kvenna sé fjarlægður að einhverju eða öllu leyti. Einnig á þetta við um hvers kyns limlestingar á kynfærum kvenna að læknisaðgerðum slepptum.
Oftast er skurðurinn framkvæmdur á tímabilinu frá fæðingu stúlku þar til hún er fimmtán ár. Umskurður er misjafnlega algengur eftir heimshlutum, en að langmestu leyti bundinn við 30 ríki í Afríku og Mið-Austurlöndum. Einnig eru dæmi um slíkt í Asíu og Suður-Ameríku, einnig meðal innflytjenda í Vestur-Evrópu, Norður-Ameríku, Ástralíu og Nýja Sjálandi.
Umskurðurinn er ekki eins algengur og áður í heiminum. Þriðjungi minni líkur eru á að stúlkur sæti slíku nú en fyrir þremur áratugum. Árið 2023 eru líkur á því að 4.34 milljónir stúlkna um allan heim verði fyrir slíku kynbundnu ofbeldi.
Menningar- og félagslegir þættir
Talið er að kynfæraskurður hafi tíðkast í meir en 2000 ár. Að baki búa ýmsir menningar- og félagslegir þættir. Þar sem þetta tíðkast hvað mest, nýtur umskurðurinn stuðning jafnt kvenna sem karla. Þeir sem setja sig upp á móti þessu eiga á hættu fordæmingu, harðræði og útskúfun. Heilbrigðisstarfsmenn framkvæma fjórða hvern umskurð. Þeir sem skera hafa af því tekjur og njóta oft og tíðum félagslegrar viðurkenningar í samfélaginu.
Ógn við heilsu stúlkna og kvenna
Umskurður getur haft í för með sér skaðvænlegar afleiðingar til skemmri- og lengri tíma litið. Fylgifiskar geta verið stöðugir verkir, sýkingar, hætta á HIV-smiti, kvíði og þunglyndi, erfiðar fæðingar, ófrjósemi og jafnvel dauði.
Bandalag við karla og drengi
UNFPA, Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna, og UNICEF, Barnahjálp samtakanna hafa um árabil barist í sameiningu gegn umskurði og leitast við að virkja karla og drengi. Talið er að slíkt sé leið til þesss að tryggja stuðning fjölskyldna, samfélaga, stofnana og ráðamanna við að fjárfesta í stúlkum og útrýma kynfæra-umskurði.
Undanfarin ár hefur tekist að afla stuðnings karla, þar á meðal trúarleiðtoga, heilbrigðisstarfsmanna, löggæslu, aðila innan borgaralegs samfélags og grasrótarsamtaka, sem náð hafa umtalsverðum árangri í að vernda konur og stúlkur.