Matvæli. Úkraína. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna„harmar innilega“ ákvörðun Rússa að hætta þátttöku í svokölluðu Svarta hafs-frumkvæði. Það er samningur sem greitt hefur fyrir útflutningi á matvælum frá úkraínskum höfnum, auk rússnesks áburðar og matvæla.
Alls hafa 32 milljónir tonna matvæla verið fluttar frá Úkraínu eftir að samningurinn var gerður. Þar á meðal hefur Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna flutt rúmlega 725 þúsund tonn til að lina hungur fólks, meðal annars í Afganistan á Horni Afríku og í Jemen.
Guterres sagði í yfirlýhsingu að Svarta hafs-frumkvæðið hefði verið „líflína og vonarneisti fyrir fæðuöryggi í þjáðum heimi.“
23% lækkun matvælaverðs
„Þegar upp er staðið er það val að taka þátt í samningnum,“ sagði Guterres.
„En fólk sem á erfitt uppdráttar og þróunarríki hafa ekkert val.
Hundruð milljóna manna standa andspænis hungri og neytendur glíma við hækkandi verð. Þetta fólk mun gjalda þessa ákvörðun háu verði. Á sama tíma og framleiðsla og framboð matvæla hefur raskast vegna átaka, loftslagsbreytinga, hækkandi orkuverðs og fleira, hefur þetta samkomulag stuðlað að lækkun matvælaverðs um 23% síðan í mars á síðasta ári.“
Hann benti á að hveitiverð hefði hækkað umsvifalaust eftir tilkynningu Rússa.
Áfall fyrir nauðstadda
„Ákvörðun Rússlands í dag er áfall fyrir nauðstadd fólk hvarvetna. En hún mun ekki stöðva viðleitni okkar til að tryggja óhindraðan aðgang matvæla og áburðar frá bæði Úkraínu og Rússlandi á heimsmarkað..Það er hreinlega of mikið veði fyrir hungraðan og særðan heim,“ sagði Guterres.