Súdan. Mannúðaraðstoð. Martin Griffiths framkvæmdastjóri mannnúðarmála Sameinuðu þjóðanna er kominn til Súdan til að þrýsta á um að koma bráðnauðsynlegri aðstoð til milljóna manna. Átök í landinu hafa snúið lífi milljóna manna á hvolf.
„Við þurfum að tryggja aðgang, við þurfum á loftflutningum að halda, við þurfum að tryggja að birgðum sé ekki stolið,“ sagði Griffiths á blaðamannafundi. „Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna hefur tjáð mér að sex vöruflutningabílar með aðstoð á leið til Darfur hafi sætt ránum og gripdeildum, þrátt fyrir að við höfum verið fullvissuð um að öryggi yrði tryggt.“
Vopnuð átök á milli súdanska hersins og skipulagðra sveita vígamanna (RSF) hafa staðið yfir í nærri þrjár vikur, þrátt fyrir margítrekaðar tilkynningar beggja stríðandi fylkinga um vopnahlé og framlengingu þeirra.
Endurreisa ber borgaralega stjórn
Frá því átökin brutust út í Súdan 15.apríl hafa rúmlega 334 þúsund manns flúið að heiman og meir en 100 þúsund manns flúið til nágrannaríkjanna að sögn samræmingarskrifstofu mannúðarmála Sameinuðu þjóðanna (OCHA).
Samkvæmt síðustu tölum Sameinuðu þjóðanna hafa 528 látist í átökunum og 4600 særst. Líklegt er þó að mun fleiri hafi týnt lífi vegna verulegrar truflunar á starfi grunnþjónustu, svo sem heilsugæslu.
„Deilendum ber að hafa hagsmuni súdönsku þjóðarinnar fyrst og fremst í huga sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna,“ og það þýðir að tryggja frið og endurreisa borgaralega stjórn til að landið megi halda áfram að þróast.“