Súdan.Flóttamenn. Rúmlega 100 þúsund manns hafa flúið átökin í Súdan og leitað skjóls í nágrannaríkjum, að sögn Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).
Auk Súdana eru í þessum hópi fólk sem leitað hafði skjóls í Súdan vegna átaka annars staðar. UNHCR telur að flóttamönnum eigi eftir að fjölga mjög og kunni að ná 800 þúsundum.
Olga Sarrado talskona UNHCR segir að mörg hinna sjö ríkja sem eiga landamæri að Súdan hýsi nú þegar fjölda flóttamanna sem hafi flúið frá öðrum ríkjum eða flosnað upp innanlands.
„Mikill fjárskortur ríkir. Þau ríki sem munu hýsa flóttamenn frá Súdan þurfa á auknum stuðningi að halda til þess að sjá fólkinu fyrir vernd og aðstoð. Á meðal brýnustu þarfa eru drykkjarvatn, matvæli, skjól, læknisaðstoð, hjálpargögn, úrræði til að bregðast við kynbundnu ofbeldi og barnaverndarþjónusta.“
Varar við fleiri dauðsföllum
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) óttast að „mun fleiri muni týna lífi“ vegna skorts á grundvallarþjónustu, auk útbreiðslu farsótta, að sögn Farhan Haq eins talsmanna Sameinuðu þjóðanna.
Sjá einnig hér.