11.október er helgaður stúlkubarninu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Að þessu sinni er Alþjóðlegur dagur stúlkubarnsins helgaður stelpukrafit. Þema dagsins er “StelpuKraftur: óskrifaður og óstöðvandi (“GirlForce: Unscripted and unstoppable”). Frá því árið 2002 hefur þeim árangri sem náðist með Beijing-yfirlýsingunni og aðgerðaáætluninni verið fagnað.

Beijing

Nærri aldarfjórðungur er liðinn frá því 30 þúsund konur og karlar frá nærri 200 löndum söfnuðust saman í Beijing höfuðborg Kína. Þar var haldin Fjórða alþjóðlega kvennaráðstefnan. Stefnt var að því að réttindi kvenna og stúlkna skyldu viðurkennd sem mannréttindi. Ráðstefnunni lauk með samþykkt Beijing yfirlýsingarinnar og aðgerðaáætlunar (Beijing Declaration and Platform for Action). Hún er talin til heildstæðustu stefnumótunar um valdeflingu kvenna.

Frá samþykkt yfirlýsingarinnar hafa konur og stúlkur barist fyrir því að þoka réttindamálum sínum áfram á mörgum sviðum. Dæmi eru kynheilbrigði og rétturinn til jafnra launa. Fleiri stúlkur stunda skóla í dag og ljúka námi en áður. Færri þeirra giftast og eignast afkvæmi á barnsaldri. Fleiri öðlast þá færni sem nauðsynleg er til að njóta sín á vinnumarkaði.

Að verja áfanga

„Við þurfum að verja þá áfanga sem náðst hafa í jafnrétti kynjanna. Við viljum láta raddir stúlkna heyrast og leyfa þeim að hafa áhrif innan fjölskyldna okkar, samfélaga og þjóða. Stúlkur geta verið afl breytinga. Ekkert ætti að hindra þær í því að taka af fullum krafti þátt á öllum sviðum samfélagsins,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Sú hreyfing sem stúlkur og konur leiða hefur fært út kvíarnar. Sjónum hefur verið beint að málefnum á borð við barnabrúðkaup, menntun, ójafnrétti, kynbundið ofbeldi og loftslagsbreytingar. Og stúlkur láta til sín taka um víð veröld og á ýmsan hátt. Til dæmis í Kakuma flóttamannabúðunum á þurrkasvæðum í norðversturhluta Kenía.

Rajastan UNICEF

Þar hafa 186 þúsund manns leitað skjóls. Í Kakuma og víða annars staðar njóta stúlkur minni réttar til menntungar og starfsnáms. Í grunnskóla sem kenndur er við Angelinu Jolie í Kakuma læra stúlkur að hanna vefsíður, tölvuleiki og verðlaunaskjöl.

„Ég vil að allar stúlkur geri sér grein fyrir því að þær geta gert stóra hluti,“ segir Nyamam Gai Gatluak. Hún er ein nemendanna sem er að læra forritagerð í Angelinu Jolie skólanum.
Nyamam og vinkona hennar Umohoza Hurlarain hafa stigið fram fyrir skjöldu fyrir hönd samnemenda sinna í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna. Þær berjast gegn staðalímyndum sem hafa fælt stúlkur frá því að öðlast þá þekkingu og færni sem hefur reynst þeim sjálfum svo vel.

„Ef þú býrð yfir hæfileika eða draumi, þá verður þú að láta vita af því. Sýna öðrum að við búum yfir hæfni og við getum breytt heiminum,“ segir Umohoz í viðtali við UN Women.
António Guterres segir að til þess að allar stúlkur geti látið hæfileika sína njóta sé samhæfðs átaks og fjárfestinga þörf á sviði heilsugæslu, öryggis og 21.aldar kunnáttu.

„Með hverju ári sem hver stúlka situr á skólabekk eftir grunnnám aukast tekjumöguleikar hennar um 25%. Ef allar stúlkur og drengir öðlast framhaldsmenntun, geta 420 milljónir manna brotist út úr fátækt“.