Sameinuðu þjóðirnar hleyptu í dag af stokkunum átaki til að berjast gegn skaðlegri flóðbylgju villandi upplýsinga um COVID-19 með því að auka framboð traustra, sannreyndra upplýsinga.
„Við getum ekki gefið þeim sem þrífast á því að breiða út lygar, hatur og ótta eftir svæði í netheimum,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. „Röngum upplýsingum er dreift á netinu sem skilaboðum á snjallforritum eða á milli einstaklinga. Þeir sem standa að baki slíku beita hugvitsamlegum brögðum við framleiðslu og dreifingu. Til þess að bregðast við þessu verða vísindamenn og stofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar að geta náð til almennings með réttum upplýsingum sem hægt er að treysta.“
Herferðinni „Sannreynt“ (Verified) er ætlað að veita upplýsingar á þremur sviðum. Í fyrsta lagi á sviði vísinda – til þess að bjarga mannslífum; í öðru lagi í nafni samstöðu – til þess að efla samvinnu heimafyrir og á alþjóða vettvangi og þriðja lagi í þágu lausna – til þess að finna lausnir fyrir þá sem harðast verða úti. Þá er ætlunin að vekja athygli á endurreisnarstarfi sem tekur loftslagsmál og baráttu gegn rótum fátæktar, ójöfnuðar og hungurs með í reikninginn.
Sjálfboðaliðar
Ætlunin er að virkja fólk um allan heim með þvi að gerast „upplýsinga-sjálboðaliðar“ með því að dreifa sannreyndu efni til að vernda fjölskyldur sínar og samfélög. Sjálfboðaliðarnir eiga að vera fremstir í stafrænu-víglínunni og munu fá afhentar daglega sannreyndar upplýsingar á einföldu, skýru formi sem hentar til samfélagslegrar dreifingar. Ýmist er upplýsingunum ætlað að vera til höfuðs rangfærslum sem fram hafa komið eða til að fylla upp í tómarúm.
Sannreynt er á vegum Alheims-samskiptadeilar Samienuðu þjóðanna (Department of Global Communications) í samstarfi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna, borgarlegt samfélag, og fjölmiðlafyrirtæki. Við dreifingu áreiðanlegra og nákvæmra upplýsinga verður efnt til samstarfs við samskiptamiðla til þess að uppræta hatursfulla og skaðvænlega orðræðu um COVID-19.
„Í mörgum ríkjum eru rangfærslur sem þrífast á stafrænum miðlum þrándur í götu starfs heilsugæslunnar og veldur óróa. Það veldur áhyggjum að verið er að nýta sér faraldurinn til þess að efla þjóðrembu og gera minnihlutahópa að blórabögglum. Þetta kann að versna enn eftir því sem álagið eykst á samfélög og efnahagsleg- og félagsleg áhrif koma fram af fullum krafti,“ segir Melissa Fleming, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði alþjóðlegra samskipta. „Sannreynt er einnig ætla að flytja jákvæðan boðskap um mannúðlega framkomu, framlag flóttamanna og farandfólks, og efla alþjóðlega samvinnu.“
Herferðin er í samvinnu við Purpose, ein stærstu samtök heims á sviði félagslegs átaks og nýtur stuðnings IKEA sjóðsins og Luminate.
Sjá nánar hér. https://www.shareverified.com