Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segist harmi sleginn yfir myndum af líkum óbreyttra borgara í Bucha í Úkraínu sem birst hafa undanfarna daga.
„Ég er harmi sleginn yfir myndunum,“ sagði aðalframkvæmdastjórinn António Guterres í yfirlýsingu. „Það er þýðingarmikið að óháð rannsókn eigi sér stað til að hægt sé að draga hina seku til ábyrgðar.“
Michelle Bachelet Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna segir í yfirlýsingu að hún hafi fyllst hryllingi yfir myndunum. Þessar fréttir og aðrar frá Úkraínu bendi til að „stríðsglæpir hafi verið framdir í Úkraínu, auk alvarlegra brota á alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum.“
Hún sagði miklu máli skipta að sönnunargögnum sé haldið til haga.
„Það skiptir miklu mali að allt sé gert til þess að tryggja að óháð og skilvirk rannsókn fari fram á atburðunum í Bucha,“ sagði Bachelet. „Sannleikurinn þarf að koma í ljós og tryggja réttlæti og skilgreina ábyrgð, auk bóta og aðstoð fyrir fórnarlömb og fjölskyldur þeirra.“
Rannsóknir þegar í gangi
Sameinuðu þjóðirnar fylgjast með mannréttindaástandinu í Úkraínu, en sérstök Mannréttindasveit samtakanna er starfandi þar. Hún hefur sjö starfsstöðvar beggja vegna víglínunnar, þar á meðal í Donetsk og Luhansk. Þær safna gögnum um mannfall meðal óbreyttra borgara og áhrifum átakanna, fylgjast með ferðafrelsi og skýra frá ásökunum um brot.
Alþjóða glæpadómstóllinn rannsakar einnig ástandið í Úkraínu.