Mannréttindi. Venesúela.
Eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna sem fylgdust með forsetakosningunum í Venesúela segja að skort hafi „gegnsæi og heilindi” þegar niðurstöður þeirra voru kunngerðar.
Kjörstjórn lýsti Nicolas Maduro forseta sigurvegara kosninganna 28.júlí, en hefur enn ekki látið frá sér sundurliðuð úrslit.
Stjórnarandstaðan segist hafa undir höndum talningablöð, sem sýni að frambjóðandi hennar Edmundo Gonzalez Urrutia hafi unnið öruggan sigur.
Fordæmalaust
Eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna segja að ákvörðun kjörstjórnar um að birta ekki úrslit einstakra kjörstaða eigi sér „engin fordæmi í lýðræðislegum kosningum samtímans.”
Fjórir sérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna fylgdust með kosningunum og aðdraganda þeirra frá lokum júní fram yfir kosningarnar 28.júlí og hafa skilað aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna bráðabirgðaskýrslu.
Óttaþrungið andrúmsloft
Volker Türk mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að „óttaþrungið andrúmsloft” sé nú í Venesúela eftir kosningarnar. 23 hafa látist í átökum, langflestir þegar skotið var á mótmælendur. Þúsundir hafa verið handteknir í mótmælum á götum úti gegn meintu kosningasvindli stjórnvalda, eða fyrir að mótmæla á samfélagsmiðlum.
Sérstök rannsóknarnefnd Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um málefni Venesúela segir að rannsaka beri dauðsföllin.
„Ef óhófleg beiting banvæns valds af hálfu öryggissveita er staðfest, ber hinum ábyrgu að standa reikningsskil,“ segir Marta Valiñas formaður rannsóknarnefndarinnar.
Síðasta heildarúttekt nefndarinnar var kynnt Mannréttindaráðinu síðastliðið haust. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að „árásir á borgaralegt og lýðræðislegt rými í Venesúela hafa færst í aukana og stjórnvöld stefna að því að þagga niður í stjórnarandstöðu og binda enda á gagnrýni á stjórn Nicolás Maduro.”
Ekkert lát á mannréttindabrotum
„Gróf mannréttindabrot halda áfram í Venesúela,” sagði formaðurinn Marta Valiñas þegar hún kynnti úttektina.
„Síðustu ár hafa einstakir meðlimir borgaralegs samfélags verið skotspónar, þar á meðal verkalýðsleiðtogar, blaðamenn og mannréttindaforkólfar. Kúgunartækjum er enn beitt og því er eftirlit með mannréttindum í Venesúela þýðingarmeira en nokkru sinni fyrr.”
7.7 milljónir manna hafa flúið frá Venesúela á undanförnum árum og beðið um alþjóðlega vernd eða í leit að betra lífi en fátækt er útbreidd í landinu.