Þrjátíu og ein árás hefur verið gerð á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar frá því Rússland réðist inn í Úkraínu að sögn Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Óbreyttir borgarar hafa látist og særst í árásunum, auk þess sem byggingar og sjúkrabifreiðar hafa eyðilagst með þeim afleiðingum að heilsugæsla hefur raskast.
„Við hvetjum til þess að öllum árásum á heilbrigðiskerfið í Úkraínu verði hætt,“ segja yfirmenn Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) í sameiginlegri yfirlýsingu.
„Þessar skelfilegu árásir hafa kostað mannslíf og valdið alvarlegum meiðslum jafnt á meðal sjúklinga sem heilbrigðisstarfsmanna.“
Yfirmenn stofnananna þriggja, Natalia Kanem (UNFPA), Tedros Adhanom Gebreyesus (WHO) og Catherine Russell (UNICEF) benda á að þúsundir manna séu án heilsugæslu vegna árásanna einmitt þegar þörfin sé mikil.
Þau segja í yfirlýsingu sinni að árásirnar á þá sem síst skyldi, hvítvoðunga, börn, ófrískar konur og sjúklinga, auk heilbrigðisstarfsmenn feli í sér „skefjalausa grimmd.“
Þörfin fyrir heilsugæsla eykst
Rúmlega fjögur þúsund og þrjú hundruð börn hafa fæðst í Úkraínu frá upphafi stríðsins. Búist er við að 80 þúsund úkraínskar konur fæði börn á næstu þremur árum. Á sama tíma eru birgðir til dæmis súrefni á þrotum og hætt við að erfitt reynist að hjálpa konum ef fæðing gengur ekki sem skyldi.
„Heilbrigðiskerfið í Úkraínu er undir miklu álagi og hrun þess hefði hörmulegar afleiðingar í för með sér. Ekkert má láta ósparað til að koma í veg fyrir að slíkt gerist….Virða ber alþjóðleg mannúðar- og mannréttindalög og vernd óbreyttra borgara verður að vera í fyrirrúmi,” segja forystumenn þessara þriggja stofnana Sameinuðu þjóðanna.
Stríðsglæpir
Skrifstofa Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) hefur ítrekað þungar áhyggjur af fjölda óbreyttra borgara sem látist hafa í innrás Rússa í Úkraínu og hefur minnt innrásarliðið á að slíkar árásir kunni að fela í sér stríðsglæpi.
„Óbreyttir borgarar hafa verið drepnir og særðir í að því er virðist handahófskenndum árásum, þar sem rússneskar hersveitir nota sprengjur í árásum í eða nærri þéttbýli. Auk loftárása má nefna stórskotalið, sprengjuvörpur, og eldflaugar,“ sagði Liz Throssell, talskona OHCRHR.