31.maí 2016. Dómi í máli Hissène Habré, fyrrverandi alvaldi Tsjad hefur verið fagnað af hálfu Mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna sem ,,sögulegum úrskurði”.
Sérstakur dómstóll í Senegal dæmdi í gær Habré til lífstíðarfangelsis fyrir glæpi gegn mannkyninu, handahófs aftökur, pyntingar og nauðgun.
,,Eftir áralanga baráttu og marga farartálma á leið til réttlætis, hefur nú verið kveðinn upp dómur sem er jafn sögulegur sem hann var harðsóttur,” segir mannréttindastjórinn Zeid Ra’ad Al Hussein. ,,Ég vona að fórnarlömb Habré muni nú loks finna fyrir létti.”
Dómurinn sem kveðinn var upp í gær er lokaþáttur í sextán ára baráttu fórnarlamba og baráttufólks fyrir mannréttindum fyrir því að láta Habré sæta ábyrgð. Hann flúði til Senegal 1990 þegar honum var steypt af stóli.
Mannréttindasamtök saka Habré um að bera ábyrgð á dauða 40 þúsund manns á valdaárum sínum frá 1982 til 1990.
Zeid, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna segist fagna því samkomulagi sem náðist á milli Senegal og Afríkusambandsins um málsmeðferðina og segir hana til fyrirmyndar í baráttunni gegn refsileysi alþjóðlegra glæpa.
,,Dómurinn í máli Habré fylgir í kjölfar dóma yfir Charles Taylor, fyrrverandi forseta Líberíu og Radovan Karadzic, foringja Bosníu Serba og sýnir að að leiðtogar ríkja og aðrir leiðtogar munu um síðir þurfa að sæta ábyrgð fyrir gerðir sínar.”