Maí-júní 2016. Svo á að heita að friðarsamkomulag hafi verið í gildi í Suður-Súdan frá því á síðasta ári en mikil spenna er í landinu og blossa upp mannskæð átök annað slagið. Helen María Ólafsdóttir, hjá UNDP Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna starfar víða um heim og hefur undanfarið verið í Suður Súdan.
,,Orsakir deilnanna eru margslungnar, en Suður Súdan er gott dæmi um hversu torsótt það er fyrir ríki að snúa við blaðinu eftir átök og setja niður
ágreining með friðsamlegum hætti.”
Helen María starfar hjá UNDP í New York en fer víða til að sinna starfi sínu, þar á meðal til Suður-Súdan. Þar hefur hún unnið að verkefnum sem tengjast því að koma á fót réttarríki og fylkja liði UNDP og UNMISS, friðargæslusveita SÞ að baki lögregluliði.
Miklar vonir voru bundnar við sjálfstæði Suður-Súdan árið 2011 en þær dvínuðu fljótt. Ættbálkadeilur í Suður-Súdan eru ekki nýjar af nálinni, en átökin á milli Nuer og Dinka ættbálkanna árið 2013 voru mannskæðari og hryllilegri en nokkur átti von á. Mikil tortryggni er á milli þessara tveggja og raunar fleiri ættbálka í þessu nýja ríki.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun 29.apríl síðastliðinn þar sem því var fagnað að varaforsetinn Reik Machar hefði snúið aftur til höfuðborgarinnar Juba og verið settir inn í embætti að nýju. Deilur hans og forsetans Salva Kiir, urðu til þess að átök hófust og hafði Machar ekki komið til Juba í tvö ár. Öryggisráðið sagði að endurkoma varaforsetans væri ,,mikilvægt skref” í þá átt að hrinda friðarsamkomulagi í framkvæmd sem undirritað var í síðastliðið sumar.
,,Það var mikil spenna í loftinu í aðdraganda endurkoma Riek Machar til Juba og það fór ekki framhjá okkur að herinn hafði uppi mikinn viðbúnað,” segir Helen.
Öryggisástandið hefur verið viðkvæmt síðan og mannúðar- og mannréttindaástand slæmt. Öryggisráðiið hvatti til þess að bráðabirgða-þjóðastjórnin ryddi úr vegi hindrunum á að flytja mannúðaraðstoð til nauðstaddra. 2.5 milljónir manna hafa flúið heimili sín og rúmar sex milljónir þurfa á neyðaraðastoð að halda til að draga fram lífið.
Helen segir brýnt að deilendur nýti tækifærið til að þoka friðarferlinu áfram. ,,Þetta er svo sannarlega ekki einfalt mál,” segir Helen. ,,Ástandið í Suður-Súdan er mjög alvarlegt, það eru litlir tekjumöguelikar, verðbólga er mikil og nánast engar tekjur koma fyrir olíuna. Þannig að Suður-Súdan rambar á barmi efnahagslegs hruns og Samræmingarskrifstofa mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna (OCHA) telur að fjórar milljónir búi við skelfilegar aðstæður og líði hungur.”
Til að bæta gráu ofan á svart hefur ríkisstjórn Suður-Súdan hindrað ferðir friðargæslusveita SÞ (UNMISS) og hjálparstarfsmanna, þvert á gert samkomulag.
,,Þessar takmarkanir hafa haft veruleg áhrif á getu sveitarinnar til að fara leiðar sinnar og vernda óbreytta borgara, auk þess sem Sameinuðu þjóðunum er meinað að koma bráðnauðsynlegri mannúðaraðstoð til nauðstaddra,” segir Helen.
Framtíð friðarsamkomulagsins er í höndum forsetans og höfuðandstæðngs hans. Viðræður hafa átt sér stað og snúast meðal annars um öryggismál og skiptingu valda. Þar á meðal er rætt um að sameina lögreglusveitir en slíkt er mikilvægt til að uppflosnað fólk geti snúið heim á ný.
,,Það er eins gott að mörg teikn eru á lofti um hægt sé að gera sér vonir um aukinn stöðugleika,” segir Helen. “Það þarf mikið átak en báðar fylkingar hafa sýnt samstarfsvilja og látið í ljós sáttfýsi. Það er ábyrgð okkar hjá Sameinuðu þjóðunum að styðja þessa viðleitni og tryggja gagnsæi í öryggisgeiranum, ekki síst til að hindra refsileysi og losna við þá sem framið hafa alvarleg brot.”