8.nóvember 2016. Árið 2030 á ekki aðeins að vera búið að ná Sjálfbærum þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, heldur stefna Bandaríkjamenn að því að senda sama ár mannað geimfar til plánetunnar Mars.
Sjálfbæru þróunarmarkmiðin, sautján að tölu, þykja almennt metnaðarfull en samkvæmt þeim skal stefnt að því að uppræta jafnt hungur sem fátækt, bjarga heiminum frá loftslagsbreytingum og tryggja jafnrétti kynjanna, svo eitthvað sé nefnt. Sumum þykir því nóg í lagt þótt ekki eigi að bjarga geimnum líka, en eins og Oscar Wilde sagði þá göslum við öll í forinni en sum okkar horfa þó til stjarnanna.
Einn í hópi hinna síðarnefndu er Doktor Karl Aspelund, aðstoðarprófessor í textílfræðum við Háskólann á Rhode Island í Bandaríkjunum.
Karl sem er alinn upp á Seltjarnarnesi á athyglisverðan náms og starfsferil að baki, en hann hefur starfað jöfnum höndum við leikmynd- og búningahönnun í leikhúsi, tölvufræði og nú síðast rannsóknir í textílfræðum. Karl starfar í hóp geimáhugamanna í Bandaríkjunum sem kallast 100 Year Starship, sem hefur að markmiðið að mannað geimskip haldi út fyrir sólkerfið eigi síðar en 2112 en mannað flug til Mars verði fyrsta skrefið.
„Það er varla hægt að komast nær því að búa til innilokað vistkerfi en með því að senda áhöfn í margra ára ferð hvort heldur sem er til stöðvar á Mars eða enn lengra í burtu,“ segir Karl Aspelund í viðtali við Norræna fréttabréf UNRIC.
Í textílrannsóknum sínum hefur Karl leitast við að skilgreina þau vandamál sem koma upp varðandi textíl og fatnað og finna leiðir til að leysa þau vandamál.
„Þetta skiptir sköpum um hvort slíkar geimferðir eru mögulegar. Ef við getum ekki leyst þau vandamál sem koma upp varðandi sjálfbærar ferðir lítils hóps geimfara, þá virðist tómt mál að tala um lengri geimferðir og mannvist utan jarðar,“ segir Karl.
Hann segist fullviss um að það sé samhengi á milli áætlana um sjálfbæra þróun og áætlana um ferðir til Mars.
„Ég hef komist að raun um það í textíl-rannsóknum mínum að ef við getum leyst slík vandamál fyrir hóp manna í geimnum, getum gert hið sama á jörðu niðri. Ef við getum fundið leiðir fyrir hóp manna – álíka fjölmennan og lítið þorp- að lifa í aflokuðu vistkerfi á Mars, þá getum við leikið það eftir við sömu aðstæður í Kalahari, Kasakstan, eða Cambridge.”
Starf Sameinuðu þjóðanna á plánetunni jörð eru vissulega kunnara en starf samtakanna í geimnum. Engu að síður hafa Sameinuðu þjóðirnar fjallað um málefni geimsins í meir en hálfa öld. Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna um málefni geimsins (The United Nations Office for Outer Space Affairs (UNOOSA)) var stofnuð 1958. Hún er staðsett í Vínarborg og beitir sér fyrir friðsamlegri nýtingu geimsins og notkun geimvísinda og tækni í þágu efnahagslegrar- og félagslegrar þróunar.
Karl Aspelund telur að Sameinuðu þjóðirnar ættu að styðja við bakið á viðleitni til að nýta vísindarannsóknir til að ýta undir sjálfbæra, staðbundna lifnaðarhætti. Jafnframt að beita sér fyrir framgangi vísindakennlsu af ýmsu tagi í grunnskólum í því skyni að auka hlut vísindaþenkjandi nemenda á heimsvísu.
„Það er ekki verið að minnka lífsgæði á jörðunni með því að aðstoða fólk við að finna lausnir í geimnum, heldur er verið að finna lausnir á vandamálum jarðarinnar á sama tíma, og það er einnig mjög mikilvægt, “ segir Karl.
„Ein lausn kemur ekki í stað annarar, heldur styðja þær hverja aðra innbyrðis. Eins og Dr. Mae Jemison, forsprakki 100 Year Starship orðaði það: „Það sem er nauðsynlegt til að lifa af í geimnum, er að sama skapi nauðsynlegt til að lifa af á jörðinni.””
(Greinin birtist einnig í Fréttatímanum).
Myndir: af Karli Aspelund úr einkasafni. Geimmyndir: Sweetie187/Flickr/ https://creativecommons.org/licenses/by/2.0/