Sigrid Kaag : samkomulag um að hefja bólusetningar við lömunarveiki á Gasa

Sigrid Kaag vonast til að bólusetningar við lömunarveiki geti hafist á laugardag.
Sigrid Kaag vonast til að bólusetningar við lömunarveiki geti hafist á laugardag.

 Gasasvæðið. Lömunarveiki. Sigrid Kaag einn æðsti embættismaður Sameinuðu þjóðanna um málefni Gasasvæðisins segist vongóð um að bólusetningarherferð við lömunarveiki geti hafist á Gasasvæðinu á næstu dögum.

„Við höfum náð samkomulagi á æðstu stigum um að hefja bólusetningar við lömunarveiki vonandi á laugardag,“ segir Kaag. Semja þurfti við Ísraelsher um skipulagningu átaksins.

Tíu mánaða gamalt barn greindist með lömunarveiki á Gasa í síðustu viku. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Alþjóða heilbrigðismálstofnunin (WHO) og (UNRWA), Palestínuflóttamannahjálpin munu sjá um bólusetningarnar í tveimur lotum. Rúmlega 640 þúsund börn undir 10 ára aldri verða bólusett.

UNICEF hefur flutt 1.2 milljón skammta af bóluefni til Gasa. Mynd: UNICEF
UNICEF hefur flutt 1.2 milljón skammta af bóluefni til Gasa. Mynd: UNICEF

2 milljónir á 25 ferkílómetrum

Sigrid Kaag háttsettur samræmandi mannúðarmála og enduruppbyggingar á Gasa hitti utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna á fundi þeirra í Brussel í dag 29.október. Hún hitti einnig blaðamenn að máli hjá Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna UNRIC í Brussel.

„Nú stefnir í að 41 þúsund óbreyttir borgarar hafi dáið á Gasa, það er aðeins dagaspursmál hvenær þeirri tölu verði náð,“ sagði Kaag. „Tvær milljónir manna hafa leitað skjóla á aðeins um 25 ferkílómetra svæði. Flestir hafa flosnað upp ítekað á þessum 11 mánuðum sem liðnir eru frá upphafi átakanna. 96 % hinna 2.1 milljóna íbúa glíma við brýnt fæðuóöryggi.”

Sigrid Kaag var varaforsætis- og fjármálaráðherra í hollensku stjórninni (2022-24). Hún gegndi áður trúnaðarstörfum fyrir Sameinuðu þjóðirnar frá 1994-2017 í Mið-Austurlöndum. Hún sagði af sér ráðherrastöðunni og var skipuð í starf sitt á Gasa um síðustu áramót.

Sigrid Kaag á blaðamannafundinum í Brussel.
Sigrid Kaag á blaðamannafundinum í Brussel.

 Gasa má ekki gleymast

Kaag kvaðst óttast að hörmungarástandið á Gasa verði hversdagslegt í hugum fólks.

„Gasa má ekki gleymast. Sú hætta er ætíð fyrir hendi að fólk líti undan og hugsi með sér að lífið haldi bara áfram. Ég lít á það sem skyldu mína í starfinu hjá Sameinuðu þjóðunum að beina athyglinni að nýju að því sem alþjóðasamfélagið getur getur gert.“

Kaag ræðir við Hadja Lahbib utanríkisráðherra Belgíu fyrir fund utanríkisráðherra ESB. Mynd: Árni Snævarr/UNRIC
Kaag ræðir við Hadja Lahbib utanríkisráðherra Belgíu fyrir fund utanríkisráðherra ESB. Mynd: Árni Snævarr/UNRIC

Palestínumenn fluttir á brott til meðferðar

Eitt þeirra mála sem Sigrid Kaag ræddi á fundinum í Brussel var fjárstuðningur Evrópusambandsins við enduruppbyggingu Gasa. Hún ræddi einnig málefni 12 þúsund óbreyttra palestínskra borgara sem hafa særst illa og orðið hart úti átökunum. Flytja verður þá frá Gasa því þar eru engin úrræði fyrir hendi. „Þetta er spurning um samstöðu og ekki hægt að ætlast til þess að einungis Egyptaland, Sameinuðu arabísku furstadæmi og Katar taki að sér sjúklinga. Ítalía hefur boðið fram aðstoð og nokkur önnur lönd.”