Leiðtogafundur um framtíðina
Sáttmáli framtíðarinnar, sem veraldarleiðtogar samþykktu í upphafi Leiðtogafundarins um framtíðina í gær, hefur að geyma fimmtíu og sex raunhæfar aðgerðir. Í viðauka sáttmálans eru alheimssamningur um stafræn málefni og Yfirlýsing um kynslóðir framtíðarinnar.
Sáttmálinn felur í sér að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna skuldbinda sig til aðgerða sem snúast um að efla og viðhalda friði, vernda óbreytta borgara, uppræta fátækt, berjast gegn loftslagsbreytingum og stuðla að jafnrétti kynjanna.

Andóf Rússlands
Samningaviðræður stóðu yfir fram á síðustu stundu. Kína sat hjá en Rússland lýsti andstöðu við tuttugu og fimm málsgreinar. Hvíta-Rússland, Erítrea, Íran, Nikaragúa, Sýrland og Venesúela studdu Rússland, sem var andsnúið orðalagi á sviði mannréttinda, jafnréttis kynjanna og samstarfs Sameinuðu þjóðanna við borgaralegt samfélag.
Olaf Scholz kanslari Þýskalands sagði þegar sáttmálinn var í höfn að hann treysti því að hann myndi endurvekja traust á Sameinuðu þjóðunum. Þýskaland og Namibía stýrðu samningaviðræðunum um Sáttmála framtíðarinnar. Sáttmálinn miðar fyrst og fremst að því að tryggja að alþjóðlegar stofnanir séu starfi sínu vaxnar í heimi sem hefur breyst gríðarlega frá því þær voru stofnaðar.

Vísa veginn
„Sáttmáli framtíðarinnar, stafræni samningurinn og Yfirlýsingin um kynslóðir framtíðarinnar vísa veginn til nýrra tækifæra og ónýttra möguleika,“ sagði António Gueterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í opnunarræðu Leiðtogafundarins um framtíðina.
Sáttmálinn er víðtækur því þar er fjallað um friðar og öryggismál, sjálfbæra þróun, loftslagsbreytingar, mannréttindi, kyn, æsku og komandi kynslóðir, auk umbreytinga á alþjóðlegum stjórnunarháttum.

Lykilatriði eru þessi:
Friðar- og öryggismál:
- Áþreifanlegustu skuldbindingar um umbætur á Öryggisráðinu frá því á sjöunda áratugnum, þar á meðal að taka á því sögulega óréttlæti að Afríka hefur ekki fastan fulltrúa í ráðinu.
- Fyrstu skuldbindingar um kjarnorku-afvopn í meir en áratug.
- Skref stigin í átt til að hindra að nýrri tækni sé beitt eða misnotuð í ástökum, þar á meðal banvæn sjáfvirk vopn.
Sjálfbær þróun, loftslagsbreytingar og fjármögnun þróunar

- Öllu samkomulaginu er ætlað að vera Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun vítamínsprauta.
- Veita þróunarríkjum meiri áhrif á ákvarðanir, sem teknar eru í alþjóðlegum fjármálastofnunum.
- Tryggja að alþjóðlegir þróunarbankar veiti meira fé til þróunarlanda.
- Umbreyta mati á mannlegum framförum, þannig að þjóðarframleiðsla taki tillit til velmegunar mannsins og plánetunnar og sjálfbærni,
- Skuldbinding um að taka upp lágmarks skatt á heimsvísu á hátekju einstaklinga.
- Ítrekuð er skuldbinding um að halda beri hlýnun jarðar miðað við iðnbyltingu innan við 1.5 °C. Ítrekuð er þörf á orskuskiptum og horfið verði frá notkun jarðefnaeldsneytis og ná nettó-núll losun fyrir 2050.
Stafræn samvinna
- Safræni sáttmálinn, sem er í viðauka Sáttmála framtíðarinnar er fyrsti heildstæði samningur um stafræna samvinnu og stjórnun á gervigreind.
Starfsmaður gerir klárt fyrir upphaf fundar. Mynd: UN Photo/Mark Garten
Ungmenni og komandi kynslóðir
- Yfirlýsingin um kynslóðir framtíðarinnar er hin fyrsta sinnar tegundar. Þar er að finna raunhæf skref sem stíga þarf til að taka tillit til kynslóða framtíðarinnar í ákvarðanatöku. Mögulegt er að skipaður verði sérstakur erindrik framtíðar kynslóða.
- Skuldbinding um að gefa ungu fólki meiri tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku um málefni, sem hafa áhrifa á líf þeirra, ekki síst á heimsvísu.
António Guterres og Philemon Yang forseti Allsherjarþingsins. Mynd: UN Photo/Mark Garten
Mannréttindi og kyn
- Mannréttinda og jafnréttisstarf ber að efla, sem og valdefling kvenna.
- Hvatt til séstakrar verndar mannréttindaforkólfa.
Lesa má sáttmálann í heild sinni hér.
Nánar um fundinn hér.