Sameinuðu þjóðirnar ýta úr vör “líflínu til Gasa”

  Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur hleypt af stokkunum átaki til að efla matvæladreifingu til sveltandi fólks á Gasasvæðinu, en hernaðaraðgerðir Ísraela til að sporna við elflaugárásum Hamas hafa nú staðið yfir í meir en tvær vikur.
Átakið nefnist “Líflína til Gasa” og miðar að því að útvega fæðu handa hundruð þúsunda manna sem orðið hafa fyrir barðinu á átökunum.

Josette Sheeran, talar við blaðamenn á landamærum Egyptalands og Gasa

“Við þurfum að grípa til tafarlausra, nýstárlegra úrræða til að lina þjáningar hungraðs fólks við óvenjulega erfiðar aðstæður. Margir eiga um sárt að binda enda er lítill aðgangur að mat og hreinu vatni,” segir Josette Sheeran, forstjóri WFP, Matvælaáætlunar SÞ.
“Jafnvel þótt færi gefist annað slagið að dreifa matvælum, má ekki gleyma því að margar fjölskyldur geta ekki eldað mat,” segir Sheeran sem var á landamærum Egyptlands og Gasa á föstudag.  
 “Það er okkar starf að útvega sveltandi fólki mat á jarðsskjálfta og þurrkasvæðum og þar sem flóðbylgjur hafa riðið yfir, en Gasa er eitt erfiðasta verkefni okkar vegna þess hve erfitt er að nálgast hina bágstöddu.” 
WFP hefur nægar birgðir til að fæða 360 þúsund manns næstu þrjár vikurnar en dreifing matvæla er mjög erfið vegna harðra átaka. Bílstjórar eru ófúsir að hætta lífi sínu og almenningur þorir oft ekki út til að ná í matvæli.