Sameinuðu þjóðirnar hvetja til þess óbreyttum borgurum verði leyft að yfirgefa átakasvæði á Sri Lank

 Æðsti yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum kom í dag (27. apríl) til Sri Lanka í því skyni að þrýsta á um að tugum þúsunda óbreyttra borgara verði sleppt úr herkví þar sem þeir eru fórnarlömb átaka stjórnarhers Sri Lanka og uppreisnarmanna Tamíla.   

 “Óbreyttir borgarar hafa orðið að gjalda þess að vera fastir í herkví  svo mánuðum skiptir og mannfallið er uggvænlegt,” sagði John Holmes aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði mannúðaraðstoðar við upphaf tveggja daga heimsóknar til Sri Lanka.

Holmes sem einnig stýrir samræmingu neyðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna, hvatti uppreisnarmenn Tamíla til að leyfa um fimmtíu þúsund manns sem eru á yfirráðasvæði þeirra, að fara. Hann hvatti Tígrana til að leggja niður vopn.  

Hann hvatti ríkisstjórnina einnig til að gæta stillingar og hætta að nota þungavopn til að hlífa óbreyttum borgurum.

Holmes lagði ríka áherslu á að hjálparsamtökum yrði leyft að nálgast fólk sem flúið hefur átökin, þar á meðal á átakasvæðinu.  

Holmes mun ræða við ríkisstjórnina, alþjóðasamtök og fleiri um skipulag meiriháttar átaks í því skyni að koma um 200 þúsund manns til hjálpar sem flúið hafa heimili sín vegna átakanna undanfarna þrjá mánuði.