20.júní 2016. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, hefur ýtt úr vör undirskriftasöfnun til stuðnings flóttamönnum.
Markmið undirskriftasöfnunarinnar, sem ber heitið #WithRefugees, er að hvetja ríkisstjórnir heimsins til að snúa bökum saman og leggja sín lóð á vogarskálarnar í þágu flóttamanna. Næstum 60 milljónir manna í heiminum hafa flúið heimalönd sín. Aldrei hafa fleiri flóttamenn verið í heiminum, nú þegar alþjóða flóttamannadagurinn er haldinn eins og ár hvert, 20.júní. Fólk flýr heimili sín, einhvers staðar í heiminum á átta mínútna fresti.
„Það verður alltaf að vernda réttindi fólks sem neyðist til að flýja heimili sín,” segir Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í yfirlýsingu í tilefni flóttamannadagsins.
Hægt er að skrifa undir á heimasíðu UNHCR hér. Undirskriftirnar verða afhentar við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York við upphaf Allsherjarþingsins 19.september. Í texta er hvatt til þess að tryggt verði að hvert einasta barn á flótta njóti menntunar, hverri fjölskyldu á flótta verði tryggt þak yfir höfuðið og að allir flóttamenn geti stundað atvinnu eða lært nýja iðn til þess að þeir geti látið gott af sér leiða í samfélaginu.