15.nóvember 2016. Rúmlega 200 þekktir rithöfundar hafa tekið áskorun UNICEF um að lýsa heimi þar sem öll börn njóta réttarins til að lifa og dafna, læra og vaxa úr grasi á heilbrigðan og hættulausan hátt.
Herferðin á rætur að rekja til Finnlands og var það forsetafrúin Jenni Hauko sem bryddaði upp á þeirri nýjung að segja sjö-lína örsögur til þess að minna á Alþjóða barnadaginn 20.nóvember og það óréttlæti sem mörg af fátækustu börnum heims búa við. Örsögurnar verða notaðar í tilefni af sjötugsafmæli UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.
Í hópi rithöfundanna eru skáldsagnarhöfundar, leik- og ljóðskáld frá Asíu, Afríku, Suður-Ameríku, Evrópu, Miðausturlöndum og Ástralíu.
„Rithöfundar eru oft skoðanamyndandi álitsgjafar og fyrirmyndir í sínu samfélagi,“ segir Jenni Hauko í viðtali við UNICEF í Finnlandi. „Þess vegna taldi ég að þeir væru í aðstöðu til að koma af stað umræðu um réttindi barna. Mikið skortir á að einföldustu réttindi barna séu virt. Ég vona að þessar sögur muni hreyfa við fólki og vekja til vitundar um að leggja sitt af mörkum.“
„Við rithöfundar kunnum þá list að efla vitund með því að segja einfalda sögu. Við viljum með þessari réttmætu og nauðsynlegu herferð leggja okkar lóða á vogarskálarnar í þágu réttinda barna um allan heim,“ segir hin heimsþekkta nígeríska skáldkona Chimamanda Ngozi Adichie. Á meðal annara höfunda má nefna Brasilíumanninn heimskunna Paulo Coelho, Christina Lamb frá Bretlandi, Nurudinn Farah, Sómalíu og Shahla Latifi, Afganistann.
Réttindi barna eru í sívaxandi mæli skert víða um heim. Meir en fimmtíu miilljónir barna hafa orðið að yfirgefa heimili sína vegna stríðs, fátæktar og loftslagsbreytinga og milljónir annara vaxa upp við ólýsanlegt ofbeldi í samfélögum sínum.
Nærri 263 millljónir barna ganga ekki í skóla og á síðasta ári létust nærri sex milljónir barna úr auðlæknanlegum sjúkdómum.
Chimamanda Ngozi Adichie reið vaðið með fyrstu sjö-lína sögunni. Takið þátt í umræðunni hér #ForEveryChild og fylgist með á facebook.
Allar sögurnar má finna hér: https://www.unicef.org/tinystories/