Gasasvæðið. Koma verður á vopnahléi tafarlaust á Gasasvæðinu í tilefni Ramadan, sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á fyrsta degi föstumánaðar múslima.
„Þótt Ramadan sé hafinn halda dráp, sprengingar og blóðsúthellingar áfram á Gasa;“ sagði Guterres. „Ég hvet eindregið til þess í dag að byssurnar þagni í anda Ramadan. Hindrunum fyrir flutningum lífsnauðsynlegrar aðstoðar verði rutt úr vegi, jafn hratt og í því magni sem nauðsyn krefur.“
Guterres krafðist þess einnig að allir gíslar, sem eru í haldi frá árásinni undir forystu Hamas 7.október, verði látnir lausir tafarlaust. Hann minnti á að nú hefði hin „skelfilega árás Ísraels á Gasa” staðið yfir í á sjötta mánuð.
Norður Gasa án aðstoðar í 6 vikur
Nú eru nærri sex vikur frá því Palestínuflóttamannahjálpinni (UNRWA) tókst síðast að koma aðstoð til norðurhluta Gasa. „Fólkið er mjög, mjög kvíðið,“ sagði Juliette Touma talskona UNRWA á X sem áður hét Twitter.
Á hverju ári þegar Ramadan gengur í garð skreyta fjölskyldur á Gasa heimili sínu með skærum ljósum og litríkum lömpum til að fagna komu Ramadan. Þá fasta múslimar frá dagrenningu til sólarlags en þá er fastan rofin með iftar – máltíð dagsins.
„Í ár er þetta öðruvísi,“ bendir UNRWA á í tölvuskeyti til stuðningsmanna sinna. „Margir munu fasta á daginn og svelta á kvöldin, með lítinn eða engan mat til að rjúfa föstuna.“
Flutningar á sjó
Reynt verður að hefja flutninga aðstoðar af hafi til Gasa með þátttöku Sameinuðu þjóðanna að því er Evrópusambandið, Bandaríkin, Bretland, Sameinuðu arabísku furstadæmin og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynntu á föstudag. Þetta er gert í náinni samvinnu við Sigrid Kaag samræmingastjóra Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum á svæðinu.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði á fimmtudag að Bandaríkin hygðust koma upp flotbryggju undan ströndum Gasa til að greiða fyrir flutningi aðstoðar. Slíkt gæti þó tekið tvo mánuði.
Almannasamtök bíða þess að fá grænt ljós til að sigla með aðstoð frá Kýpur til hundruð þúsunda sveltandi Gasa-búa.