Fleiri rafbílar en díselbílar seldir í Evrópu

Rafbílar
Mynd: ;ichael Fousert - Unsplash

Rafbílar skutu díselbílum ref fyrir rass í fyrsta skipti í desember 2021. Þá voru 20% seldra bíla í Evrópusambandsríkjum og Bretlandi rafbílar en díselbílar í Evrópusambandslöndunum voru innan við 19%.

Lætur nærri að 9% allra bíla í Vestur-Evrópu séu eingöngu rafknúnir.

Sala rafknúinna bíla hefur tvöfaldast á hverju ári undanfarið og er salan mest í Evrópu. Norðmenn eru í forystu en á síðasta ári voru 80% seldra bíla í Noregi algjörlega rafknúnir. Mikill munur er hins vegar á suður- og norðurhluta Evrópu. Þannig eru aðeins 2.2% grískra bíla algjörlega eða að hluta rafknúnir.

Mynd: Anastasiia Krutota-Unsplash

Mörg þróuð ríki hafa heitið því að draga smátt og smátt úr notkun bensín og díselknúinna bíla á næstu 20 árum til að draga úr losun lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum. Mörg Evrópuríki niðurgreiða nýja og notaða rafbíla.

Það veldur nokkrum áhyggjum að fjöldi notaðra bensín- og díselbíla er nú seldir til þriðja heims ríkja. Talið er að tveir þriðju hlutar bílaflota heimsins verði í lág-og meðaltekjuríkjum árið 2050. Því er tómt mál að tala um að ná markmiðum Parísarsamningsins um loftslagsaðgerðir ef ekki er gert átak í þróunarríkjum.

UNEP, Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur hleypt af stokkunum umfangsmikiklu átaki á heimsvísu til að styðja fátæk ríki við umbreytingu á þessu sviði. Nær það jafnt til stefnumótunar og tæknilegrar aðstoðar. https://www.unep.org/explore-topics/transport/what-we-do/global-electric-mobility-programme

En áhrifin eru ekki aðeins á sviði loftslagsmála.

„Þetta hefur gríðarlega jákvæða áhrif á menngun því diselbílar eru ein helsta uppspretta öreinda-mengnar (PM 2.5) sem hefur afar skaðleg áhrif á heilsuna. Á sama tíma er enginn útblástur frá rafbílum. Það skiptir því verulegu máli fyrir loftmengun og loftslagsbreytingar að knýja bíla með rafmagni,“ segir Rob de Jong yfirmaður sjálfbærra samgangna hjá UNEP.