8.júní 2016. Andvirði þess fjár sem fer í gegnum peningaþvætti í heiminum árlega nemur einni og hálfri billjón Bandaríkjadala eða fimmtán hundruð milljörðum dala.
Yury Fedotov, forstjóri fíkniefna og glæpaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna segir í grein sem birst hefur í dagblöðum víða um heim, að síðasta ítarlega úttekt á málinu á heimsvísu sé orðin fimm ára gömul og því sé þessi tala trúlega talsvert hærri.
Fedotov segir að það sé ekki meginatriðið hvort þeir sem komi við sögu í Panama-skjölunum svo kölluðu hafi gerst sekir um lögbrot.
,,Það sem veldur áhyggjum er að það virðast vera neðansjávarhellar sem eru fullir af fjársjóðum undir meginhafi alþjóðlegra fjármála.”
Auk þess fjár sem rennur í gengum peningaþvottavél fjármálakerfisins, bendir Fedotov á að spilling grefur undan trausti á fjármálakerfi og trúverðugleika ríkisstjórna og veldur samfélögum okkar miklum skaða, ekki síst þeim sem höllustum standa fæti.
,,Fé sem ríkistjórnir verða af, hefur í för með sér að skólar og sjúkrahús eru ekki byggð; að ekki sé minnst á lífsnauðsynlega innviði á borð við vegi og brýr. Það er mikill misskilingur að spilling sé glæpur án fórnarlambs. Þau eru fjölmörg og flest fórnarlambanna eru í hópi þeirra kvenna, barna og karla sem eiga um sárt að binda; einstaklingar sem líða fyrir að fé sem ætti að renna til nauðsynlegrar þjónustu, gufar upp.”
Fedotov bendir á að ríki heims eigi öflugt vopn í vopnabúri sínu: Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna gegn spilling (UN Convention against Corruption (UNCAC)). Hann leggur til aðgerðir á fjórum sviðum: Í fyrsta lagi staðbundna löggjöf til þess að ,,brýna tennur UNCAC”, í annan stað að veita dómskerfi vald og sjálfstæði til þess að beita sér gegn spilling, í þriðja lagi að auka alþjóðlega samvinnu og í fjórða lagi að efla gaqngvirki til þess að finna, gera upptækt og skila þýfi glæpamanna.
,Markmið okkar er eftirfarandi: Ekkert þýfi sem stolið hefur verið frá þróunarríkjum, skal skilið eftir á erlendum bankareikningum eða skattaskjólum. Það verður að skila öllu,” skrifar Júrí Fedotov, forstjóri Fikniefna og glæpaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.