Nýleg könnun í Svíþjóð bendir til að meir en þriðjungur Svía muni ekki láta bólusetja sig fyrir COVID-19. Í könnun Dagens Nyheter og Ipsos kvaðst 36% aðspurðra líklega eða örugglega ekki láta bólusetja sig við kórónaveirunni þegar bóluefni verður tilbúið.
Þetta er því athyglisverðara fyrir þær sakir að mjög hátt hlutfall Svía hefur ævinlega látið bólusetja sig. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) telur að mótspyrna gegn bólusetningum sé ein af „Tíu alvarlegustu ógnum við lýðheilsu” á lista sem tekinn var saman á síðasta ári, 2019.
Andúð á bólusetningum er áhyggjuefni í ljósi COVID-19 faraldursins. Kapphlaupið um að koma COVID-19 bóluefni á markað er nú algleymingi. Um 40 mismunandi bóluefni hafa komið fram sem talið er óhætt að prófa á mönnum. Tíu eru á lokastigi tilrauna. Engu að síður hefur veiran leitt í ljós mikið vantraust.
Bólusetning við svínaflensu
Helsta ástæða þess að fólk hikar við eða hafnar bólusetningu er óttinn við hliðarverkanir. Þar má helst nefna ótta við að valda einhverfu eða að bólusetning hafi önnur slæm áhrif á börn. Í sumum tilfellum trúir fólk því að áhættan sé meiri en veikindi af völdum sjókdómsins. Enn má nefna ótta við að ekki hafi verið gerðar nægilegar tilraunir til að hægt sé að kveða upp úr um að bólusetingin sé örugg.
Í Svíþjóð er óttinn ekki ástæðulaus með öllu. Árið 2009 fengu 500 börn og ungmenni drómasýki (svefnflog) af völdum bólusetningar við svínaflensu. Önnur möguleg ástæða fyrir efasemdum er ótti við hversu hratt bóluefni hefur verið þróað. Meirihluti aðspurðra nefndi hugsanlegar hliðarverkanir.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin WHO hefur bent á þrennt sem valdi mótspyrnu við bólusetningar. Skortur á trausti, andvaraleysi og erfiðu aðgengi
Að bólusetja við mislingum
Bólusetningar eru á meðal helstu afrekum á sviði lýðheilsu. Bóluefni sætir enn rækilegri rannsókn en lyf almennt.
Þrautrannsakað og öruggt bóluefni gegn mislingum hefur verið til í meir en hálfa öld. Samt sem áður hefur tíðni mislinga aukist t.d.í Evrópu þar sem aðgangur að bóluefni er frjáls og ódýr.
Mislingar eru bráðsmitandi. Í verstu tilfellum geta þeir haft í för með sér blindu og lungnabólgu. Smit getur borist í heila og valdið bólgu. Auðvelt er að koma í veg fyrir mislinga með bólusetningu. Talið er að á árunum 2000-2018 hafi þannig verið bjargað 23 milljónum mannslífa.
En á árunum 2016-2017 jókst tíðni mislinga um 30% í nærri öllum heimshlutum.
Mikill árangur
Margar frægðarsögur má segja af bólusetningum undanfarna áratugi. Fyrir aðeins 2 mánuðum, 25.ágúst, var því lýst yfir að Afríku-umdæmi WHO væri orðið laust við mænusóttarveiru. Á tuttugustu öld var mænusótt eða lömunarveiki einn skæðasti barnasjúkdómurinn í iðnríkjunum. Veiran herjar fyrst og fremst á börn undir fimm ára aldri. Eitt smit af hverjum 200 leiðir til ólæknandi lömunar. 5 til 10% deyja þegar öndunarvöðvar lamast.
Árið 1988 samþykkti Alþjóða heilbrigðismálaþingið ályktun þar sem stefnt var að útrýmingu mænusóttar. Frá þeim tíma hefur tíðnin minnkað um meir en 99%.
Mannskæð inflúensa
Tíðni inflúensufaraldra hefur aukist í heiminum á undanförnum árum. Í skýrslu frá síðasta ári um þær hættur sem stafa að heiminum í heilbrigðismálum (“A World at Risk” the Global Preparedness Monitoring Board (GPMB)) var varað við því að út gæti brotist mannskæður faraldur öndunarfærasjúkdóma sem gæti grandað 50 til 80 milljónum. 5-10% hagkerfis heimsins gæti þurrkast út. „Heimsfaraldur af slíkri stærðargráðu gætu haft í för með sér hamfarir, skapað mikin usla, óstöðugleika og óöryggi. Heimurinn er ekki tilbúinn til að takast á við slíkt,” sagði í skýrslunni.
Fræðist um bóluefni
Brýnt er láta ekki bara bólusetja sjálfan sig heldur hvetja aðra til slíks hins sama. Rangar upplýsingar eru afar skaðlegar og brýnt að bregðast snarlega við þeim.
Ástæða er til að hvetja fólk til að kynna sér hvað vísindasamfélagið hefur að segja um hvernig bóluefni eru þróuð og hvernig þau virka.
Hér má sjá upplýsingar um sex algengar ranghugmyndir um bólusetningar: https://www.who.int/vaccine_safety/initiative/detection/immunization_misconceptions/en/