Alþjóðlegur dagur rússneskrar tungu. Rússneska er eitt af fjórum aust-slavneskum málum. Hana tala 258 milljónir manna eða fleiri en nokkur annað slavneskt eða raunar evrópskt tungumál. 6.júní er Alþjóðlegur dagur rússneskunnar.
Á degi rússneskrar tungu er fitjað upp á ýmsum atburðum svo sem upplestrum, leiksýningum og tónleikum. Dagurinn er haldinn á afmælisdegi Alexsandr Pushkin (1799-1837), rithöfundar sem samdi skáldsögur, leikrit og ljóð. Pushkin var brautryðjandi í því að skrifa á mæltu máli rússneskrar alþýðu í stað þess formlega stíls, sem viðgengst fram að hans tíma.
Yfirleitt er talað um að rússneskumælandi fólk sé 258 milljónir, þar af er rússneska móðurmál 154 milljóna.
Fjöldi Rússa hefur flutt til Finnlands
Noregur og Finnland eiga landamæri að Rússlandi. Þó er ólíku saman að jafna því rússnesk-finnsku landamærin eru 1287 kílómetrar að lengd en rússnesk-norsku aðeins 241 kílómetri. 80 þúsund manns eru rússneskumælandi í Finnlandi, þar af eru 30 þúsund annað hvort rússneskir borgarar eða hafa tvöfaldan ríkisborgararétt. Þá tala fjöldi Úkraínubúa, og þegna Eystrasaltsríkjanna, sem búa í Finnlandi, rússnesku. Þá fluttu sex þúsund Rússar til Finnlands á síðasta ári og er það mesti fjöldi í 30 ár – frá hruni Sovétríkjanna. Reyndar er það nærri tvisvar sinnum hærra en að meðaltali síðustu 30 ára. Aðeins 5500 manns fluttu yfir landamærin fyrsta árið eftir að fall Sovétríkjanna gerði það mögulegt.
Dagurinn er á vegum UNESCO, Mennta-,vísinda og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Tilgangurinn er að fagna fjölbreytleika og efla fjöltungustefnu, auk þess að stuðla að jafnri notkun allra sex opinberra mála Sameinuðu þjóðanna. Árið 2010 var efnt til sérstakra alþjóðlegra daga helguðum hverju hinna opinberu mála Sameinuðu þjóðanna; arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku.
Frá babúsku til pogrom
Allmörg rússnesk orð hafa unnið sér þegnrétt í öðrum tungumálum. Dæmi um það eru bolséviki, babúska og vodka en einnig cosmonaut, pogrom, samovar, sputnik og tsar.
Rússnesk mannanöfn samanstanda af skírnarnafni, ættarnafni og föðurnafni. Það er myndað með nafni föður og endingunni -ovitsj (eða ovich) fyrir son og -ovna fyrir dóttur, ekki ósvipað og á íslensku.
Kýrilíska stafrófið er byggt á hinu gríska. Um tylft stafa hefur verið bætt við til að tákna sér-slavnesk hljóð.
Rússneska, er auk ensku, alþjóðlegt geim-mál. Geimfarar verða að læra rússnesku og tölvukerfi alþjóðlegu geimstöðvarinnar er á rússnesku og ensku.
Rússneska hefur þá sérstöðu að búa yfir fleiri orðum yfir hin ýmsu litbrigði bláa litarins, en flest önnur mál.