Öryggisráðið hvetur til tafarlauss vopnahlés á Gasa

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í kvöld með þorra atkvæða að krefjast tafarlauss vopnahlés á Gasa sem myndi leiða til brottflutnings ísraelskra herja. Öll ríki greiddu atkvæði með ályktuninni sem Bretar mæltu fyrir að Bandaríkjamönnum undanskyldum en þeir sátu hjá.

Í ályktuninni er þess einnig krafist að leyfðir verði óhindraðir flutningar á matvælum, eldsneyti og læknisaðstoð til alls Gasasvæðisins auk þess að alþjóðlegt starf til að hindra vopna- og skotfærasmygl verði eflt.   ´

Ályktunin var samþykkt á fjórtánda degi aðgerða Ísraelsmanna. Þar er lögð áhersla á að palestínstínskir og ísraelskir borgarar verði verndaðir, lýst áhyggjum af miklu mannfalli meðal óbreyttra borgara og sívaxandi neyðarástandi í mannúðarmálum á Gasa. Hvers kyns ofbeldi gegn óbreyttum borgurum og hvers kyns hryðjuverk eru fordæmd.
 
Samkvæmt palestínskum upplýsingum sem Sameinuðu þjóðirnar telja áreiðanlegar hafa 758 fallið í aðgerðum Ísraela á Gasa, þar af 257 börn og 56 konur. 3100 hafa særst, 1080 af þeim börn og 452 konur.