Öryggisráðið var stofnað til að vera aðalverndari friðar í heiminum. Allsherjarþingið getur rætt öll heimsmál en öryggisráðið fjallar aðeins um vandamál er varða frið og öryggi. Öll aðildarríki SÞ samþykktu að lúta ákvörðunum Öryggisráðsins og fara eftir þeim.
Aðild
Öryggisráðið er skipað 15 fulltrúum. Fimm þeirra eru fastafulltrúar. Það eru: Kína, Frakkland, Rússland, Bretland og Bandaríkin. Hinir tíu fulltrúarnir sem ekki eru fastir fulltrúar eru valdir á allsherjarþinginu til tveggja ára í senn og eru valdir út frá landfræðilegu sjónarmiði.
Hlutverk öryggisráðsins
- Að fjalla um málefni er ógna heimsfriði og geta leitt af sér alþjóðaátök
- Að leggja fram grundvallarlausnir við alþjóðaátök
- Að koma með tillögur að framkvæmdum gegn hverskonar ógn gegn heimsfriði og öryggi
- Að koma með tillögur til allsherjarþingsins varðandi val á aðalframkvæmdastjóra
Þing
Öryggisráðið heldur ekki reglulega fundi eins og Allsherjarþingið. Hins vegar er hægt að kalla saman fund í öryggisráðinu hvenær sem er með stuttum fyrirvara. Sérhvert land, hvort sem það er aðili að SÞ eða ekki, eða aðalframkvæmdastjórinn geta lagt ágreiningsefni eða friðarhótanir fyrir öryggisráðið.
Meðlimirnir skiptast á að vera forsetar ráðsins í mánuð í senn. Þeir starfa eftir stafrófsröð þeirra landa sem þeir eru fulltrúar fyrir samkvæmt enska stafrófinu.
Atkvæðagreiðsla
Atkvæðagreiðsla í öryggisráðinu fer öðruvísi fram en á allsherjarþinginu. Til þess að samþykkja mikilvæga ályktun í öryggisráðinu, þurfa níu aðilar að greiða meðatkvæði, en ef einhver fastafulltrúanna fimm greiða mótatkvæði, er það kallað að beita neitunarvaldi og ályktunin verður þá ekki samþykkt.
Nánari upplýsingar um öryggisráðið á ensku: http://www.un.org/Docs/sc/