
Óháð rannsóknarnefnd um Venesúela. Mannréttindi.
Ofbeldi gegn stjórnarandstæðingum í Venesúela hefur aldrei verið meira, að því er fram kemur í rannsóknarskýrslu sem unnin var fyrir Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna.
Að sögn rannsóknarnefndar, sem ráðiði hefur skipað, hefur ríkisstjórn Nicolas Maduro forseta beitt handtökum, kynferðislegu ofbeldi og pyntingum til að halda sér við völd.

Í skýrslu óháðrar Alþjóðlegrar rannsóknarnefndar (International Fact-Finding Mission on Venezuela) kemur fram að „færslur á samfélagsmiðlum séu næg ástæða handtöku.”
Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að ástandið í Venesúela sé „ein alvarlegasta mannréttindakreppa á síðari árum.”
Ótvíræðar niðurstöður: engin breyting til batnaðar
Marta Valiñas formaður nefndarinnar sagði á blaðamannafundi í Genf í dag (17/9) að niðurstöðurnar væru ótvíræðar. „Ekki hefur orðið nein breyting til batnaðar, heldur hafa mannréttindabrot færst í aukana og ofbeldisverk hafa aldrei verið tíðari.”

Creative Commons Attribution 3.0
Óháðu mannréttindasérfræðingarnir segja að enn hafi kúgun á gagnrýnendum stjórnarinnar aukist og áframhald hafi orðið á því sem nefndin hefur áður lýst sem líklegum glæpum gegn mannúð.
Nefndin segir að 25 dauðsföll hafi verið staðfest eftir mótmælin í kjölfar endurkjörs Maduro. Flest fórnarlambana hafi verið ungt fólk undir þrítugu úr fátæktarhverfum, en tvö börn eru í hópi látinna.

Fólk hjálparvana gegn gerræði
Síðasta skýrsla óháðu rannsóknanefndarinnar tekur til tímabilsins frá september 2023 til ágúst 2024. Réttarríkinu hafi enn hnignað frá forsetakosningunum, segir í skýrslunni og „opinber yfirvöld reyni ekki lengur að líta út fyrir að vera sjálfstæð.” Þegnarnir séu „hjálparvana” gagnvart „gerræðislegri beitingu valds.”

„Við höfum skráð 40 dæmi um að öryggissveitir ryðjist inn á heimili án úrskurðar og hafi notað myndbönd á samfélagsmiðlum til að handtaka fólk fyrir þátttöku í mótmælum eða andóf á samélagsmiðlum,” sagði Francisco Cox Vial félagi í nefndinni sem Mannréttindaráðið stofnaði 2019.
Ekki sanngjörn málsmeðferð
120 voru handteknir á meðan kosningabaráttunni stóð og að sögn yfirvalda voru tvö þúsund handteknir í fyrstu viku mótmælanna. Í hópi þessa fólks eru 100 börn, þar á meðal sum með fötlun. Þau eru sökuð um þátttöku í hryðjuverkum og að hvetja til hatursglæpa. Hafa hinir handteknu ekki notið sanngjarnrar málsmeðferðar að mati rannsakendanna.
Pyntingar og kynferðislegt ofbeldi
Margir hinna handteknu hafa sætt pyntingum og annars konar grimmdarlegri, ómannnúðlegri eða niðurlægjandi meðferð, auk kynferðislegs ofbeldis. Konur og stúlkur hafa aðallega sætt slíku en einnig karlar. Beitt hefur verið raflostum, barsmíðum með oddhvössum bareflum. Fólk hefur verið kæft með plastpokum,dýft í kalt vatn og svipt svefni,” sagði Patricia Tappatá Valdez rannsóknarnefndarmaður.
„Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að margar af þessum ásökunum fela í sér glæpi gegn mannúð,” sagði félagi hennar Cox Vial.