28.júní 2016. Svíþjóð etur í dag kappi við Ítalíu og Holland um tvö sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Allsherjarþingið kýs í dag þau ríki sem sitja munu í ráðinu árin 2017 og 2018, og eru löndin þrjú í framboði um tvö sæti sem eyrnamerkt eru hópi Vestur-Evrópu og annara ríkja.
„Samkeppnin er gríðarlega hörð,” segir Olof Skoog, fastafulltrúi Svía hjá Sameinuðu þjóðunum í viðtali við blaðið Dagens Nyheter í dag. ”Við erum í hálfgerðum dauðariðli eins og sagt er á knattspyrnumáli. Við keppum við tvö ríki sem hafa háð mjög góða kosningabaráttu og eru mjög virk í stjórnmálum á heimsvísu.”
2017-2018 verða tuttugu ár liðin frá því Svíþjóð átti síðast sæti í öryggisráðinu og tíu ár frá því norrænt ríki var þess heiðurs aðnjótandi. Finnland og Ísland hafa hins vegar bæði tapað í kosningum til öryggisráðsins á þeim tíma.
Sýnt verður beint frá kjörinu í vefsjónvarpi Sameinuðu þjóðanna og hefst kosning klukkan 2 að íslenskum tíma.
Kosið er að þessu sinni til Öryggisráðsins í júní í stað október til þess að ríkjum gefist aukið ráðrúm til að undirbúa setu sína í ráðinu.
Fimmtán ríki eiga sæti í Öryggisráðinu. Allsherjarþingið kýs alls tíu ríki til tveggja ára setu í ráðinu og eru fimm sæti laus að þessu sinnni. Fimm ríki eiga svo fast sæti í ráðinu, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland.