Nýverðlaunuð samtök undirbúa Alþjóða hreinsunardaginn 16.september með byr í seglum

Alþjóða hreinsunardags-teymið tekur við verðlaunum 23.júlí 2023. Heidi Solba önnur frá vinstri, Tómas Knútsson lengst til hægri.
Alþjóða hreinsunardags-teymið tekur við verðlaunum 23.júlí 2023. Heidi Solba önnur frá vinstri, Tómas Knútsson lengst til hægri. Mynd: ©FAO/Cristiano Minichiello.

Alþóðlegi hreinsunardagurinn. Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun. Skipuleggjendur Alþjóða hreinsunardagsins undirbúa árlega hreinsunarátakið 16.september fullir orku enda státa þeir nú af eftirsóttum verðlaunum. Aðgerðarverðlaunum Heimsmarkmiðanna (UN SDG Action Award) hefur verið líkt við Óskarsverðlaunin í þessum geira og þau hlaut Alþjóða hreinsunardagurinn  í flokknum „að fylkja liði.“ Verðlaunin voru afhent í Róm í sumar í tengslum við Matvælaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Tómas Knútsson hefur tekið þátt í hreinsunarátakinu frá upphafi og stundað strandhreinsun miklu lengur. Hann var viðstaddur verðlaunaafhendinguna, enda einn af landsleiðtogum Alþjóða hreinsunardagsins.

 

„Það var mikil upplifun fyrir mig að vera tilnefndur;“ segir Tómas, oft kenndur við Bláa herinn, sem hann hefur starfrækt um árabil. „Svo var það bónus að vinna og mikil hvatning frá Sameinuðu þjóðunum.“

Samtökin Let’s Do It World standa að baki Alþjóðlega hreinsunardeginum (World Cleanup Day)  en hann var haldinn í fyrsta skipti 2018.  Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir Evrópusambandsins taka þátt í átakinu í krafti verkefnisins (#EUBeachCleanup), herferð sem nær hámarki 16.september.

4% íbúa Eistlands

Alþjóðlegi hreinsunardagurinn snýst um að fylkja liði. Hann á rætur að rekja til Eistlands, en árið 2008 var efnt þar til landhreinsunarátaks. Tóku 50 þúsund manns eða 4% íbúanna þátt í átaki sem stóð í einn dag.

„Við vildum sjá hvort okkur tækist að hreinsa allt landið af alls kyns úrgangi,” sagði Heidi Solba, forseti alheimstengslanets Let’s Do It World og Alþjóða hreinsunardagsins.

Heidi Solba
Heidi Solba. ©FAO/Cristiano Minichiello. Editorial use only. Copyright ©FAO

„Það var alls kyns rusl frá dögum sovéska hersins í almenningsgörðum og skógum. Það voru hjólbarðar jafnvel ónýtir ísskápar í almannarými. Eistland er lítið land og íbúafjöldinn 1.3 milljón, þannig að við töldum gerlegt að framkvæma þetta á einum degi.”

Sjálfboðaliðar frá 600 mismunandi almannasamtökum voru í 6 mánuði að skipuleggja herferðina sem fór fram á sólríkum vordegi 8.maí 2008. 4% íbúanna lögðu lóð sín á vogarskálarnar og jafngildir það því að 15 þúsund Íslendingar gerðu slíkt, 420 þúsund Svíar, 2.7 milljónir Frakka eða 13 og hálf milljón Bandaríkjamanna. Þessum góða árangri var meðal annars náð, þökk sé góðri markaðssetningu þar sem forseti landsins, og stjörnur úr tónlist og sjónvarpi lögðu hönd á plóginn.

Mynd: Matthias Gellissen/Unsplash

 „Það hefur verið reiknað út að ef ríkið hefði skipulagt þetta, hefði það tekið 3 ár en ekki hálft ár og kostað 22.5 milljónir evra á verðlagi 2008,” segir Heidi Solba í viðtali við vefsíðu UNRICs.

„Þetta sýnir hversu mikið afl er hægt að virkja hjá almenning með öflugri markaðssetningu.”

Standhreinsun.
Standhreinsun. Mynd: OCG Saving The Ocean /Unsplash

Alheimshreyfing

Nú er þetta orðið hreyfing á heimsvísu. Undanfarin fimm ár hafa hvorki meira né minna en 70 milljónir tekið þátt í Alþjóða hreinsunardeginum og þar með lagt sitt af mörkum til Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun. Á hreinsunardeginum 17.september 2022 voru 15 milljónir sjálfboðaliðar virkjaðir, og hreinsuðu þeir 60 þúsund tonn af úrgangi úr náttúrunni með 30 milljónum vinnustunda á einum degi. Markmið hreinsunardagins er að vekja fólk til vitundar um úrgang og virkja fólk í þágu málstaðarins.

Allir þeir sem tilnefndir voru til verðlaunanna stilla sér upp til myndatöku.
Allir þeir sem tilnefndir voru til verðlaunanna stilla sér upp til myndatöku. Mynd: SDG Action Awards

„Aðalhugmyndin er sú að stuðla að breytingum í samfélaginu með því að draga fólk út úr húsum, út á götur og í almenningsgarða og sýna fram á mátt samvinnunnar,” segir Solba.

„Á þennan hátt sér fólk gildi samvinnu og sér afraksturinn á kílómetra eftir kílómetra af hreinsuðum görðum og ströndum. Þetta hefur reyndar mikil áhrif á gildismat og hegðun fólks í framtíðinni að auki.”

Allt endar í sjónum

Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar beina sjónum sínum að strandhreinsun. Þegar upp er staðið, bendir Solba á, endar allt í sjónum því ekkert ríki býr ekki yfir ám sem enda í hafinu.

Sameinuðu þjóðirnar og ESB hafa teki9ð höndum saman um strandhreinsun á alþjóðlega daginn. Mynd: Evrópusambandið

„80% af úrgangi á ströndum á uppruna sinn inni í landi. Við verðum að hugsa í sjálfbærum lausnum til þess að þurfa ekki að hreinsa upp eftir okkur,” segir hún.

Alþjóða hreinsunardagurinn er sannarlega nátengdur sjálfbærni. Að mati Solba snertir átakið sjö af  sautján Heimsmarkmiðum.

Um verðlaunin, sem hún tók við fyrir hönd Alþjóðlega hreinsunardagsins á Matvælaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sagði hún:

„Þau skipta miklu máli og sama gerir samtarf okkar við Sameinuðu þjóðirnar og ýmis konar samtök. Þessi verðlaun eru viðurkenning fyrir hið mikla verk sem þetta tengslanet og oddvitar hafa unnið í þeim 164 ríkjum þar sem við höfum sérstaka fulltrúa og teymi.”